Hoppa yfir valmynd
6. september 2018 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með utanríkisráðherra og varaforseta Kína

Guðlaugur Þór Þórðarson og Wang Qishan, varaforseti Kína - myndUtanríkisráðuneytið

Aukin viðskipti Íslands og Kína, jarðhitasamstarf, loftslagsmál, norðurslóðamál og mannréttindi voru helstu umræðuefnin á fundum sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti með varaforseta og utanríkisráðherra Kína í Peking í dag. 

Fjögurra daga heimsókn Guðlaugs Þórs til Kína hófst í morgun. Fyrst á dagskránni voru fundir með annars vegar Wang Qishan, varaforseta Kína, og hins vegar Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Tvíhliða samskipti ríkjanna voru aðalumræðuefnið á báðum fundunum en fjögur ár eru síðan fríverslunarsamningur Íslands og Kína gekk í gildi. 

„Kína er orðið eitt helsta efnahagsveldi heims og áhrif landsins í alþjóðakerfinu orðin að sama skapi afar mikil. Það er því mikilvægt fá tækifæri til að ræða beint við tvo af æðstu ráðamönnum ríkisins um sameiginlega hagsmuni. Þar ber viðskipti einna hæst enda hafa þau vaxið jafnt og þétt með tilkomu fríverslunarsamningsins. Við vorum sammála um að enn séu ónýtt tækifæri á því sviði,“ sagði Guðlaugur Þór að loknum fundunum.

Guðlaugur Þór Þórðarson og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína
Guðlaugur Þór og Wang Yi, utanríkisráðherra Kína. Mynd: Utanríkisráðuneytið

Ráðherrarnir ræddu hvernig nýta mætti ennþá betur fríverslunarsamning ríkjanna en vonir standa til að innan skamms aukist enn möguleikar íslenskra fyrirtækja á útflutningi til Kína, til dæmis á lambakjöti. Þá voru loftferðamál og ferðaþjónusta einnig til umræðu en stjórnvöld beggja ríkja hafa áhuga á að koma á beinu áætlunarflugi á milli Íslands og Kína og auka þannig bæði farþega- og vöruflutninga. 

Loftslagsmál voru ofarlega á baugi á báðum fundunum í Peking og í samhengi við þau aukið samstarf á sviði jarðvarma. Á því sviði hafa Kínverjar og Íslendingar átt farsælt samstarf í rúman áratug en vistvænir orkugjafar eru eitt af forgangsmálum Kínverja. Þá greindi Guðlaugur Þór frá fyrirhugaðri formennsku Íslands að Norðurskautsráðinu en Kína er áheyrnaraðili að ráðinu. Guðlaugur Þór tók svo upp mannréttindamál. 

„Mannréttindi eru lykilþáttur í utanríkisstefnu Íslands og við eigum að láta einskis ófreistað til að setja þau mál á dagskrá, ekki síst nú þegar Ísland hefur tekið sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna. Ég kom afstöðu okkar á framfæri og við áttum uppbyggilegt samtal um þessi mál.“

Fundur utanríkisráðherra Íslands og Kína í Peking í kvöld
Fundur utanríkisráðherra Íslands og Kína í Peking í kvöld. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Á morgun hittir Guðlaugur Þór kínverska embættismenn og á laugardag stendur til að hann heimsæki borgina Xiongan í Hebei-héraði. Þar hafa Arctic Green Energy og kínverska orkufyrirtækið Sinopec rekið sameiginlega hitaveitu um árabil og er hún orðin ein stærsta jarðhitaveita heims. 

Heimsókn Guðlaugs Þórs til Kína lýkur á mánudag. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta