Hoppa yfir valmynd
7. september 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslenska áfram kennd við Kaupmannahafnarháskóla

Íslenska verður áfram kennd við Kaupmannahafnarháskóla en áformað var að leggja niður valnámskeið í norrænum fræðum, þar með talið í íslensku, forníslensku og færeysku, vegna niðurskurðar við hugvísindadeild skólans. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Tommy Ahlers menntamálaráðherra Danmerkur hafa fundað um málið og nú er ljóst að kennslunni verður fram haldið en háskólinn hyggst endurskipuleggja námið.

„Þetta eru afar jákvæðar fréttir og ég er bjartsýn um að farsæl lausn sé í farvatninu sem muni tryggja að námsframboð í íslensku verði áfram gott við Kaupmannahafnarháskóla,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Íslendingar og Danir eiga farsælt samstarf á sviði tungumála, rannsókna og menningar og þar er Kaupmannahafnarháskóli mikilvægur hlekkur. Við metum samvinnu og skilning danskra menntamálayfirvalda mikils í þessu máli.“

Kaupmannahafnarháskóli er ein elsta menntastofnun Norður-Evrópu og eini danski háskólinn þar sem boðið er upp á nám í íslensku. Þar er einnig varðveittur hluti handritasafns Árna Magnússonar. Í svörum skólans kemur fram að tryggt verði að framlag til handritarannsókna verði óskert og að skólinn muni að sjálfsögðu virða áfram sína samninga og skuldbindingar við Stofnun Árna Magnússonar. Fram hefur komið að eftirspurn eftir námi í íslensku, forníslensku og færeysku sé ekki mikil og atvinnutækifæri fá í Danmörku fyrir fólk með menntun á þeim sviðum og því verði nauðsynlegt að aðlaga kennslu í fögunum að fámennari nemendahópum. Unnið verður að útfærslu þess í samráði við danska menntamálaráðuneytið.

Einnig verður hugað að námsframboði í forn- og nútímaíslensku fyrir doktorsnema við skólann. Kaupmannahafnarháskóli á enn fremur í góðu samstarfi við íslenska háskóla um sumarskóla, námskeið og kennaraskipti og mun skólinn áfram bjóða dönskum nemendum upp á valnámskeið í íslenskum bókmenntum, bæði klassískum og nútímabókmenntum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta