Fjárlagafrumvarpið: Aukin hagsmunagæsla vegna EES
Heildarútgjöld utanríkismála árið 2019 eru áætluð 16.704,3 m.kr. Þau aukast um 1.224,9 m.kr. á föstu verðlagi frá fjárlögum 2018, eða sem svara til 8,2 prósenta. Þegar einnig er tekið tillit til áhrifa af almennum launa- og verðlagsbreytingum hækka útgjöldin um 1.743,4 m.kr. á milli ára, eða sem svarar til 11,7 prósenta.
Á meðal breytinga á fjárheimildum sem varða utanríkismál má nefna að 162 m.kr. verður varið til að styrkja starfsemi sendiráðsins í Brussel og fjölga fulltrúum fagráðuneyta þar. Þetta er í samræmi við áherslu ríkisstjórnarinnar um að efla hagsmunagæslu vegna EES-samningsins.
Þá eru fjárheimildir auknar um 98 m.kr. vegna tveggja tímabundinna verkefna. Annars vegar er um að ræða 48 m.kr. framlag vegna formennsku í norrænu ráðherranefndinni og hins vegar 50 m.kr. vegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019-2021.
Lagt er til að auka fjárheimildir til sendiráða Íslands í Nýju-Delí og Washington um 160 m.kr. þar sem áætlanir gera ráð fyrir að vegabréfsáritunum á Indlandi og í Bandaríkjunum fjölgi verulega vegna fjölgunar ferðamanna á leið hingað til lands. Rétt er að undirstrika að ekki er gert ráð fyrir að þessi útgjaldaaukning hafi áhrif afkomu ríkissjóðs þar sem auknar tekjur af áritunargjöldum renna þangað og vega þannig upp á móti henni.
Fjárheimildir til varnar- og öryggismála aukast á milli ára. Mestu munar þar um 127 m.kr. vegna endurnýjunar á ratsjárkerfi og stjórnstöðvum sem tengjast þátttöku Íslands í samþættu loftrýmiseftirliti og loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland.
Heildarfjárheimild utanríkisráðuneytisins vegna þróunarsamvinnu fyrir árið 2019 er áætluð 5.918,9 m.kr. og hækkar um 233,1 m.kr. frá gildandi fjárlögum, að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum en þær nema 188,9 m.kr. Miðað er við að 0,28 prósent af vergum þjóðartekjum ársins 2019 verði varið til opinberrar þróunaraðstoðar í heild. Í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er stefnt að því að auka heildarframlag til opinberrar þróunaraðstoðar á næstu árum og að það verði komið í 0,35 prósent af vergum þjóðartekjum árið 2022.