Hækkun á framlögum til umhverfismála um 1,5 milljarð frá fyrra ári
Framlög til umhverfismála hækka á næsta ári um 1,5 milljarða króna fyrir utan launa- og verðlagsbætur samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að veita alls 600 milljónum kr. til loftslagstengdra verkefna fyrir árið 2019 og er það í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna. Fjármagnið verður nýtt til aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum sem kynnt var í gær.
Þá er gert ráð fyrir að hækka framlög til uppbyggingu innviða, rannsókna og vöktunar á svæðum í íslenskri náttúru um 500 milljónir kr. og verður þá alls varið rúmum milljarði til slíkra verkefna á árinu.
Loks er gert ráð fyrir að veita alls 200 milljónum kr. til landvörslu á friðlýstum svæðum.
Á næstu árum mun fjármagn til umhverfismála aukast enn frekar í samræmi við fjármálaáætlun 2019 – 2023.