Hoppa yfir valmynd
14. september 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Verkáætlun og staða stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi kynnt í ríkisstjórn

Verkáætlun og yfirlit yfir stöðu verkefna stýrihóps um heildstæðar úrbætur að því er varðar kynferðislegt ofbeldi var kynnt í ríkisstjórn í morgun.

Á meðal verkefna stýrihópsins er að fylgja eftir framkvæmd aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Í því sambandi hefur dómsmálaráðuneytið þegar veitt fjármagni til níu lögreglustjóraembætta til að fjölga stöðugildum og til stendur að leggja fjármagn í kaup á tækni- og upplýsingabúnaði annars vegar og til að bæta menntun og endurmenntun lögreglumanna/ákærenda hins vegar.

Stýrihópurinn mun jafnframt fá til liðs við sig tvo utanaðkomandi sérfræðinga sem vera munu hópnum til ráðgjafar í tengslum við endurskoðun á réttarstöðu brotaþola annars vegar og hins vegar í tengslum við stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi. Þá hyggst hópurinn leggja til skipan sérstakrar nefndar sem vinna mun með stýrihópnum að því að móta nýja stefnu í forvarnar- og fræðslumálum að því er varðar kynferðislegt ofbeldi og áreitni.

Meðal verkefna hópsins er að gera tillögur um viðbrögð við #metoo-byltingunni annars vegar innan Stjórnarráðsins og hins vegar gagnvart samfélaginu almennt. Stýrihópurinn mun standa fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um #metoo á næsta ári í tengslum við formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Undirbúningur ráðstefnunnar er hafinn og verður hún haldin í september 2019. Hópurinn hefur einnig farið ítarlega yfir viðbrögð ráðuneyta við #metoo- byltingunni og yfirfarið verkferla í tengslum við kynferðislega áreitni og einelti. Gera má ráð fyrir að hópurinn leggi fram frekari tillögur um úrbætur síðar á þessu ári.

Loks var hópnum gert að beita sér fyrir fullgildingu Samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi (Istanbúl samningsins). Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu í apríl sl. og mun hópurinn koma að eftirfylgni með framkvæmd samningsins hér á landi.

Stýrihópurinn hefur sett sér meðfylgjandi verkáætlun til þriggja ára og áætlar að ljúka störfum eigi síðar en vorið 2021.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta