Annir í utanríkisráðuneytinu
Óvenju gestkvæmt var í utanríkisráðuneytinu í dag og viðfangsefnin hjá utanríkisráðherra og starfsfólki utanríkisráðuneytins hafa verið af ýmsum toga.
Sameiginlega þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandins fundaði í Hörpu í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi við nefndina um samskipti Íslands og ESB. Í máli ráðherra kom fram að EES-samningurinn, ásamt Schengen og Atlantshafsbandalaginu, veittu góðan ramma fyrir þátttöku Íslands í Evrópusamstarfi. Á síðustu misserum hefði Ísland lagt sig mikið fram við að bæta framkvæmd EES-samningsins og von væri á frekari aðgerðum. Á sama tíma væri það á ábyrgð beggja samningsaðila að hlúa að samningnum. Sérstaklega væri nauðsynlegt að vernda tveggja stoða kerfið. Þá legði Ísland áherslu á að bæta enn frekar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir.
John C. Rood, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Sturla Sigurjónsson. Mynd: Utanríkisráðuneytið.
Síðdegis áttu Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og John C. Rood, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, fund á öryggissvæðinu í Keflavík. Þeir fjölluðu um tvíhliða samstarf Íslands og Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum, sem stendur á traustum grunni og fer vaxandi.
Frá samráðsfundinum með Japan í dag. Mynd: Utanríkisráðuneytið.
Fyrr í dag fór fram í utanríkisráðuneytinu reglubundið pólitískt samráð við Japan þar sem málefni norðurslóða, viðskiptatengd mál, mannréttindamál og öryggismál voru meðal umfjöllunarefna. Yasushi Masaki, aðstoðarráðherra úr utanríkisráðuneyti Japans fór fyrir japönsku sendinefndinni og fundaði meðal annars með Sturlu Sigurjónssyni, ráðuneytisstjóra.
Frá fundi fríverslunarnefndar Íslands og Kína. Mynd: Utanríkisráðuneytið
Um svipað leyti var haldinn í ráðuneytinu þriðji fundur fríverslunarnefndar Íslands og Kína. Á fundinum var farið yfir þróun viðskipta milli Íslands og Kína frá gildistöku samningsins árið 2013. Þá voru líka rædd ýmis atriði sem tengjast framkvæmd samningsins, til dæmis tollamál, upprunareglur og markaðsaðgangur fyrir íslenskar landbúnaðarvörur og sjávarafurðir.