Endurskoðun reglugerðar til að jafna rétt barna
Reglugerð nr. 451/2013 fjallar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar. Í III og IV kafla reglugerðarinnar er fjallað um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.
Málefni barns með skarð í vör sem hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga bendir til þess að börn með fæðingargalla sitji ekki öll við sama borð varðandi rétt til endurgreiðslu kostnaðar vegna nauðsynlegrar þjónustu: „Reglugerðin virðist leiða til þess að rétturinn til endurgreiðslu ræðst af því hvernig fæðingargallinn er, frekar en að litið sé til afleiðinganna sem hann hefur í för með sér og kostnaðarins sem hlýst af nauðsynlegum fyrirbyggjandi aðgerðum. Þetta kallar á endurskoðun svo unnt sé að jafna stöðu barna í samræmi við það sem er faglega réttmætt og réttlátt í þessum efnum“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.