Hoppa yfir valmynd
21. september 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Verkefni með Umhverfisstofnun til að draga úr plastnotkun

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Umhverfisstofnun gerðu nýlega með sér samning um verkefni sem ætlað er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum plastnotkunar.

Annars vegar er um að ræða verkefnið „Hreint vatn í krana“ sem snýst um kynningu til ferðamanna sem koma til Íslands um óþarfa þess að kaupa vatn í einnota umbúðum hér á landi. Vatn á Íslandi sé nánast alls staðar hreint og öruggt til neyslu og af notkun og flutningi plastflaskna hljótist óþarfa loftslagsáhrif og önnur neikvæð umhverfisáhrif. Hannað verður kynningarefni í takt við átakið „Turn the tap on“ og gert ráð fyrir að verkefnið verði unnið í samstarfi við atvinnulífið, frjáls félagasamtök, sveitarfélög, veitustofnanir og fleiri.

Hins vegar er um að ræða verkefni sem snýr að kynningu og fræðslu um ofnotkun á einnota plasti. Útbúið verður kynningar- og fræðsluefni fyrir vef- og samfélagsmiðla með skilaboðunum „Notaðu fjölnota“.

Verkefnin tvö tengjast úrgangsforvarnarstefnu umhverfis- og auðlindaráðherra, Saman gegn sóun, sem gildir til ársins 2027 og hefur það meginmarkmið að draga úr myndun úrgangs. Áhersla er lögð á nægjusemi – að nýta betur og minnka sóun – og á fræðslu til að koma í veg fyrir myndun úrgangs.

Verkefnin tengjast einnig heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um ábyrga neyslu og framleiðslu. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið greiðir Umhverfisstofnun 3,5 milljónir króna vegna framangreindra verkefna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta