Mannréttindi, öryggismál og loftslagsaðgerðir rædd í Sameinuðu þjóðunum
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, tekur þátt í störfum allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir. Í gær flutti ráðherra ræðu í tilefni af því að 70 ár eru liðin frá samþykkt mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og tók þátt í umræðu um stöðu mála í Sýrlandi. Einnig sat Guðlaugur Þór opinn fund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, sem forseti Bandaríkjanna stýrði. Þar voru gereyðingarvopn og fækkun þeirra til umfjöllunar. Þá funduðu utanríkisráðherrar Norðurlandanna með ríkjum Karíbahafsins þar sem loftslagsmál voru einkum til umræðu. Utanríkisráðherra sótti jafnframt viðskiptaráðstefnu Bloomberg ásamt forseta Íslands, hr. Guðna Th. Jóhannessyni.
Í dag tók utanríkisráðherra þátt í ráðherrafundi stuðningshóps ríkja um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn og sótti fund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um málefni Norður-Kóreu og afvopnun á Kóreuskaga. Á fundi um loftslagsmál gerði Guðlaugur Þór grein fyrir loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar sem nýlega var kynnt. Einnig sótti hann ráðherrafund um málefni Alþjóðlega sakamáladómstólsins.
Utanríkisráðherra hefur átt fjölda tvíhliða funda í tengslum við allsherjarþingið. Fyrr í vikunni fundaði hann með sjávarútvegsráðherra Indónesíu, Susi Pudjiastuti, þar sem rætt var um samstarf ríkjanna í sjávarútvegsmálum og jarðhita. Ráðherra fundaði einnig með Mariu Ubach Font, utanríkisráðherra Andorra, þar sem rætt var um aukna samvinnu í Evrópumálum.
Í dag fundaði Guðlaugur Þór með framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, Thorbjörn Jagland, um helstu mál á vettvangi ráðsins nú um stundir. Þá ræddi hann við utanríkisráðherra Kósóvó, Behgjet Pacolli, um stöðu mála á vestanverðum Balkanskaga og samskipti ríkjanna. Guðlaugur Þór hitti einnig forsætisráðherra Úganda, Ruhakana Rugunda, um mannréttindamál og aukið samstarf þar sem Ísland hefur nýlega styrkt starfsemi sendiráðsins í Kampala.
Þátttöku utanríkisráðherra í allsherjarþinginu lýkur síðdegis á morgun þegar ráðherra flytur ræðu sína í þinginu.