Heilbrigðisráðherra á leiðtogafundi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna
Alþjóðaheilbrigðismálastofunin (WHO) hefur skilgreint langvinna sjúkdóma (e.noncommunicable diseases) sem helstu ógn heimsbyggðarinnar við félagslegri og efnahagslegri framþróun á 21. öldinni, en sjúkdómar sem til þeirra teljast eru algengasta dánarmeinið á heimsvísu. Því hefur allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna gert langvinna sjúkdóma að sérstöku umfjöllunarefni og er þetta í þriðja sinn sem haldinn er sérstakur leiðtogafundur um efnið.
Í ávarpi sínu ræddi Svandís um hvernig langvinnir sjúkdómar auka álag á heilbrigðiskerfi þjóða og hafa áhrif á hagvöxt og velferð íbúa heims. Því þurfi stefnur stjórnvalda á öllum sviðum að taka mið af þessum veruleika og stuðla að heilsuvernd eins og kostur er, með stuðningi samfélagsins alls, því öflugt samfélag byggist á góðri heilsu og vellíðan almennings.
Á fyrri leiðtogafundum hefur mest áhersla verið lögð á hjarta- og æðasjúkdóma, langvinna lungnasjúkdóma, krabbamein og sykursýki. Að þessu sinni hefur einnig verið fjallað um geðsjúkdóma og sjúkdóma í mænu- og taugakerfi og lýsti Svandís ánægju með þá áherslu.
Helstu áhættuþættir langvinnra sjúkdóma eru vel þekktir s.s. hreyfingarleysi, tóbaks- og áfengisneysla og óhollt matarræði. Allt eru þetta atriði sem hægt er að hafa áhrif á með breyttum lífsstíl fólks og markvissum aðgerðum stjónvalda. Svandís sagði mikilvægt að stjórnvöld styddu við bakið á einstaklingum með aðgerðum sem ýta undir að fólk kjósi heilnæmustu kostina hverju sinni, jafnframt því að bæta heilsulæsi almennings. Hún nefndi einnig aðra þætti sem einnig hafa áhrif á heilsu fólks eins og félagslegir og efnahagslegir þættir, viðskipti og iðnaður og enn fremur margvíslegir umhverfisþættir.
Svandís minnist sérstaklega á góðan árangur í tóbaksvörnum hér á landi í alþjóðlegum samanburði þar sem dregið hefur jafnt og þétt úr daglegum reykingum fullorðinna Íslendinga. Tæp 9% fullorðinna landsmanna reykja og vísaði ráðherra til virkara og áhrifaríkra forvarnaraðgerða sem unnið hefði verið að á grundvelli stefnu stjórnvalda. Ráðherra talaði einnig um áherslur heilsueflandi samfélags og sagði frá því að nú byggju um 80% landsmanna í sveitarfélögum sem störfuðu á þeim grunni, en í því felst það markmið að skapa umhverfi sem styður við heilbrigði og vellíðan íbúa.
Höfum ekki efni á að gera ekki neitt
Framkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar beindi því til aðildarríkjanna fyrr á þessu ári að ráðast í markvissar aðgerðir til þess að bæta aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustu og draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga. Svandís ræddi um aðgerðir íslenskra stjórnvalda í þessu skyni og lagði áherslu á að sterkt opinbert heilbrigðiskerfi sé einn af hornsteinum velferðarkerfisins. Hún sagði frá þeirri stefnu að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og ræddi einnig um þá vinnu sem stendur yfir við mótun heilbrigðisstefnu og fyrirhugað heilbrigðisþing síðar á árinu til að tryggja virka þátttöku hagsmunaaðila.,,Kannski finnst okkur að við höfum ekki efni á því sem við þurfum að gera - en það sem við höfum ekki efni á er að gera ekki neitt“ voru lokaorðin í ræðu Svandísar Svavarsdóttur heilbriðgisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem eins og áður sagði var haldið í 73 sinn.