Fyrirkomulag gjaldtöku vegna markaðssetningar á rafrettum sem innihalda nikótín
Í reglugerð ráðherra er kveðið á um fyrirkomulag tilkynninga vegna markaðssetningar þessarar vöru, hvaða upplýsingar beri að veita og birtingu þeirra. Samkvæmt þeirri útfærslu gjaldtökunnar sem Neytendastofa vinnur að er ekki gert ráð fyrir að tilkynningargjald leggist á smásala, nema í þeim tilvikum sem viðkomandi smásali kýs sjálfur að tilkynna vöru á markað. Annars verði það framleiðendur vörunnar sem sæki um markaðsleyfi og greiði áskilið gjald samkvæmt reglugerðinni.
Neytendastofa fer með markaðseftirlit með rafrettum og áfyllingum fyrir þær í samræmi við ákvæði laga nr. 87/2018 og umræddrar reglugerðar. Í reglugerðinni er kveðið á um heimild Neytendasstofu til að innheimta gjald fyrir hverja tilkynningu og nemur það 75.000 krónum fyrir viðkomandi vörulínu áfyllinga með mismunandi magni nikótín vökva og tegundir tækja sem framleiðendur vilja markaðssetja hér á landi.
Smásalar hafa lýst áhyggjum af því að þurfi þeir að greiða tilkynningargjaldið sem kveðið er á um í reglugerðinni muni það reynast þeim ofviða og gera þeim ómögulegt að setja rafrettur sem innihalda nikótín og vörur sem þeim tengjast á markað. Velferðarráðuneytið telur að framangreind útfærsla gjaldtökunnar muni ekki valda smásölum hér á landi óyfirstíganlegum kostnaði enda verður það á valdi viðkomandi framleiðenda að taka ákvörðun um vörulínur sem hann óskar eftir að tilkynna til markaðssetningar hér á landi.
Útfærsla gjaldtökunnar sem Neytendastofa vinnur að er í samræmi við reglugerð ráðherra og byggist meðal annars á danskri og sænskri fyrirmynd.