Hoppa yfir valmynd
2. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með aðalframkvæmdastjóra UNESCO

Guðlaugur Þór Þórðarson og Audrey Azoulay - myndUNESCO/Christelle ALIX

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ræddi framboð Íslands til framkvæmdastjórnar UNESCO og lýsti áhuga á enn nánara samstarfi á fundi með aðalframkvæmdastjóra UNESCO í París í morgun. Ráðherra fundaði jafnframt með stjórnendum OECD og tók svo þátt í rakarastofuráðstefna um jafnréttismál í höfuðstöðvum stofnunarinnar. 

Guðlaugur Þór er í tveggja daga heimsókn í París þar sem hann hittir bæði þarlenda ráðamenn og yfirmenn alþjóðastofnana. Í gær átti hann meðal annars gagnlegan fund með Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, þar sem EES-mál, Brexit og umhverfismál voru efst á baugi. 

Í morgun hitti utanríkisráðherra svo Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóra Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Á fundinum bar hæst umræður um mikilvægi þess að tryggja öllum góða menntun í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig Ísland og UNESCO geta eflt samstarf sitt. Lýsti Guðlaugur Þór meðal annars áhuga á að gera sérstakan rammasamning við stofnunina  sem legði grundvöll að frekari stuðningi Íslands við einstök verkefni. Þá ræddi Guðlaugur Þór við Azoulay framboð Íslands til setu í framkvæmdastjórn UNESCO 2021-2025. Um sameiginlegt norrænt framboð er að ræða en Norðurlöndin skiptast á að bjóða sig fram til setu í framkvæmdastjórn UNESCO. Röðin er nú komin að Íslandi, sem sat síðast í framkvæmdastjórninni á árunum 2001-2005. 

„Ég er afar ánægður með þennan jákvæða og uppbyggilega fund með Azoulay. Ísland hefur mikið fram að færa á sviði mennta- og menningamála og þess vegna var gott að fá tækifæri til að kynna henni áherslur okkar í þeim efnum nú þegar framboð okkar til setu í framkvæmdastjórn UNESCO stendur fyrir dyrum. Ég notaði líka tækifærið og bauð Azoulay að Ísland tæki þátt í að halda rakarastofuráðstefnu um jafnréttismál á aðalskrifstofu UNESCO á næsta ári og leist henni vel á þá hugmynd. Þá bauð ég henni jafnframt að sækja 
Ísland heim við tækifæri,“ sagði Guðlaugur Þór að loknum fundinum. 

Utanríkisráðherra á rakarastofuráðstefnu í París
Utanríkisráðherra á rakarastofuráðstefnunni í París í dag. Mynd: Utanríkisráðuneytið. 

Síðdegis fór einmitt fram rakarastofuráðstefna í höfuðstöðvum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, en Ísland og OECD héldu ráðstefnuna í sameiningu og var utanríkisráðherra á meðal þátttakenda.

Fyrr í dag hitti hann Charlotte Petri Gornitzka, framkvæmdastjóra þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC) en nefndin er leiðandi vettvangur ríkja sem leggja fram fé til þróunarsamvinnu, meðal annars um almenna samvinnu og skilvirkni. Á meðal umræðuefna á fundinum var jafningjarýni nefndarinnar á fyrirkomulagi þróunarsamvinnu á Íslandi í fyrra. Að fundi loknum átti Guðlaugur Þór svo fund með José Ángel Gurría, framkvæmdastjóra OECD. Þar voru efnahagsmál til umræðu á almennum nótum en líka loftslagsmál og jafnréttismál og var Íslandi hrósað fyrir frammistöðuna á þeim vettvangi .


Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Charlotte Petri Gornitzka, framkvæmdastjóri þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC). Mynd. Utanríkisráðuneytið. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta