Hoppa yfir valmynd
13. október 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpar afmælishátíð Pólska skólans í Reykjavík

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði afmælishátíð Pólska skólans í Reykjavík í dag en skólinn fagnar 10 ára afmæli í ár.

Í ávarpi sínu minntist forsætisráðherra á mikilvægi þess að fólk þekkti móðurmál sitt og menningararf; móðurmálið væri stór hluti af sjálfsmynd okkar allra: „Sterk tengsl við uppruna sinn auka sjálfstraust og ánægju. Samkvæmt rannsóknum styður markviss örvun móðurmálsins við lærdóm annars máls. Góður grunnur í móðurmáli er því góð undirstaða fyrir íslenskukunnáttu. Það er ekki síst mikilvægt þegar kemur að því að byggja upp samfélag þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna. Tvítyngi er máttur. Sagan sýnir að þegar tveir menningarheimar mætast verður til nýr sköpunarkraftur; kraftur sem vert er að virkja,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Pólski skólinn í Reykjavík var stofnaður 2008 af hópi kennara og foreldra sem vildu tryggja kennslu í móðurmáli, pólskri sögu og landafræði Póllands til pólskra barna á höfuðborgarsvæðinu. Skólinn er rekinn af Vinafélagi Pólska skólans í Reykjavík. Til vinafélagsins teljast allir foreldrar barna sem stunda nám í Pólska skólanum og kennarar skólans. 361 nemandi á aldrinum 5 til 18 ára stunda nám í skólanum.

Í tilefni afmælisins færði forsætisráðherra skólanum 100 þúsund króna fjárstyrk að gjöf, til kaupa á búnaði sem getur eflt starf og kennslu.

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt kennurum Pólska skólans - mynd
  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Monika Sienkiewicz, skólastjóri Pólska skólans - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta