Hoppa yfir valmynd
15. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Efling heilsugæslunnar: Sérnámsstöðum í heimilislækningum fjölgað

Svanhvít Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í dag ákvörðun sína um að veita 57 milljóna króna framlag til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins til að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum um fimm. Á fjárlögum þessa árs eru 300 milljónir króna ætlaðar til að efla þverfaglega þjónustu heilsugæslunnar.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins leitaði til ráðuneytisins í sumar með ósk um viðbótarfjárveitingu í þessu skyni. Nú eru 46 læknar í sérnámi í heimilislækningum eftir umtalsverða fjölgun í sumar með þrettán nýjum námsstöðum. Af þeim eru 30 á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, 8 á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, 6 á Heilbrigðisstofnun Suðurlands og hinir tveir eru á heilbrigðisstofnununum á Austurlandi og Suðurnesjum.

Þörf fyrir að fjölga sérnámsstöðum í heimilislækningum er tvíþætt. Annars vegar er fjölgun sérfræðinga í heimilislækningum mikilvæg til að fylgja eftir áherslum stjórnvalda um eflingu heilsugæslunnar og aukið hlutverk hennar innan heilbrigðiskerfisins. Hins vegar er meðalaldur starfandi sérfræðinga í heimilislækningum fremur hár og stór hópur þeirra mun fara á eftirlaun á næstu árum.

Þróunarmiðstöð heilsugæslu – aukin áhersla á þverfaglega þjónustu

Svandís sagði frá ákvörðun sinni varðandi sérnámsstöðurnar í húsakynnum Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar sem sett var á fót í sumar í samræmi við þá áherslu að efla og þróa heilsugæsluþjónustu um allt land. Þróunarmiðstöðin starfar innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hefur það hlutverk að leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu, hvort sem hún er veitt af hinu opinbera eða einkarekin.

Svandís segir ánægjulegt að sjá hvernig aðgerðir til að efla heilsugæsluna eru farnar að skila sér. Það sé til að mynda staðfest með nýrri skýrslu Embættis landlæknis um Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: „Þar er sérstaklega getið um góðan árangur varðandi bætt aðgengi að heilsugæslunni, stóraukna sálfræðiþjónustu fyrir börn og ávinninginn af því að setja á fót hjúkrunarvakt á öllum stöðvum stofnunarinnar. Ég er verulega ánægð með þennan árangur og það gleður mig að finna metnaðinn hjá stjórnendum og starfsfólki stofnunarinnar til að vinna stöðugt að bættri þjónustu við notendur.“

Svanhvít Jakobsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að engin ein aðgerð til eflingar heilsugæslunnar sé mikilvægari en sú að fjölga námsstöðum og tryggja þannig framtíðarmönnun læknisþjónustu heilsugæslunnar. Þetta er mjög mikilvægur stuðningur við heilsugæsluna og mikilvægur áfangi í eflingu hennar.

Á fjárlögum þessa árs voru samþykktar 300 milljónir króna til að styrkja þverfaglega þjónustu heilsugæslunnar, meðal annars með framlögum til Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs verður áfram unnið að eflingu heilsugæslunnar og framlög til heilsugæslu á landsvísu aukin um tæpan milljarð króna. Þar af er um 650 milljóna króna framlag ætlað til að fjölga geðheilsuteymum og fjölga stöðugildum sálfræðinga. Áfram verður unnið að því að styrkja hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustað sjúklinga, meðal annars með áherslu á aukna teymisvinnu, forvarnir og fræðslu.

  • Efling heilsugæslunnar: Sérnámsstöðum í heimilislækningum fjölgað - mynd úr myndasafni númer 1
  • Efling heilsugæslunnar: Sérnámsstöðum í heimilislækningum fjölgað - mynd úr myndasafni númer 2
  • Efling heilsugæslunnar: Sérnámsstöðum í heimilislækningum fjölgað - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta