Ljósmæður og hjúkrunarfræðingar fái heimild til að ávísa getnaðarvörnum
Bæta á aðgengi kvenna, einkum ungra kvenna, að kynheilbrigðisþjónustu og nýta betur fagþekkingu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra samkvæmt frumvarpi til breytinga á lyfjalögum og lögum um landlækni og lýðheilsu sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að leggja fram á Alþingi. Samkvæmt því verður ljósmæðrum og hjúkrunarfræðingum heimilað að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum. Ráðherra kynnti frumvarpið á fundi ríkisstjórnar í dag.
Efni frumvarpsins er í samræmi við breytingar sem unnið er að í tengslum við þau ákvæði laga nr. 25/1975 sem lúta að fræðslu og ráðgjöf um notkun getnaðarvarna og útvegun þeirra. Frumvarpið samræmist einnig markmiðum gildandi þingsályktun um lyfjastefnu um að veita sérmenntuðum hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum takmarkaðan rétt til að ávísa tilteknum lyfjum. Loks er höfð hliðsjón af skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar á kynheilbrigði og þriðja heimsmarkmiði Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem lýtur að heilsu og vellíðan og felst í því að tryggja almennan aðgang að heilbrigðisþjónustu á sviði kynheilbrigðis. Frumvarpið er efnislega samhljóða frumvarpi sem lagt var fram á 140 löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga.
Heimildin verður skilyrt
Miðað er við að heimild hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra til að ávísa hormónatengdum getnaðarvörnum verði sé háð þeim takmörkunum að viðkomandi starfi á heilbrigðisstofnun þar sem heilsugæslu-, kvenlækninga- eða fæðingarþjónusta er veitt. Jafnframt er gert ráð fyrir að heimildin sé bundin við leyfi sem landlæknir veitir að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum sem sett verða í reglugerð. Meðal þeirra skilyrða er að viðkomandi hafi sótt og staðist fræðilegt og klínískt námskeið um lyfjaávísanir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir margvíslegan ávinning að þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér, nái það fram að ganga: „Þetta snýst um greiðara aðgengi kvenna að ráðgjöf og leiðbeiningum samhliða ávísun þessara getnaðarvarna eftir því sem það á við. Eins er bæði æskilegt og nauðsynlegt að nýta betur menntun og sérþekkingu þessara mikilvægu heilbrigðisstétta þegar allt bendir til þess að með því megi efla mikilvæga þjónustu og stuðla að greiðara aðgengi að henni.“