Hoppa yfir valmynd
19. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Ráðgjafanefnd skipuð um fagleg málefni blóðbankaþjónustu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað ráðgjafanefnd um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Hlutverk nefndarinnar er að vera heilbrigðisyfirvöldum, Landspítala og blóðbanka spítalans til ráðgjafar um hvaðeina sem lýtur að faglegum þáttum og öryggissjónarmiðum blóðbankaþjónustu. Formaður nefndarinnar er Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga.

Um ráðgjafanefndina og blóðbankaþjónustu er fjallað í 7. gr. reglugerðar um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs, nr. 441/2006. Heilbrigðisráðherra skipar formann án tilnefningar, en aðrir fulltrúar eru tilnefndir af hálfu Landspítala, Sjúkrahússins á Akureyri og sóttvarnalæknis. 

Nefndin skal meðal annars fjalla um hvar neyðarbirgðir blóðhluta skuli vera staðsettar og hvernig tryggja megi nægar blóðbirgðir á hverjum tíma, en þannig að fyrningu blóðhluta vegna neyðarbirgða sé haldið í lágmarki. Yfirlæknir blóðbanka hefur rétt til setu og þátttöku á öllum fundum ráðgjafanefndarinnar. Nefndin setur sér starfsreglur, sem ráðherra staðfestir.

Ráðgjafanefndin er svo skipuð:

  • Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga, án tilnefningar, formaður
  • Kári Hreinsson, yfirlæknir svæfingadeildar, tiln. af Landspítala
  • Ólöf Sigurðardóttir, rannsóknarlæknir, tiln. af Sjúkrahúsinu á Akureyri
  • Vilhelmína Haraldsdóttir, sérfræðingur í lyflækningum og blóðsjúkdómum, tiln. af sóttvarnalækni.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta