Umhverfis- og auðlindaráðherra ræðir loftslagsbreytingar við Sir David King á Hringborði norðurslóða
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ræðir loftslagsbreytingar við Sir David King í málstofu á Hringborði norðurslóða á laugardag. Hringborð norðurslóða, Arctic Circle, hófst í Hörpu í morgun. Í málstofunni með King verður sjónum beint að loftslagsbreytingum og norðurslóðum.
Sir David King er prófessor emeritus í efnaeðlisfræði við University of Cambridge og var áður sérlegur erindreki breska utanríkisráðuneytisins í loftslagsmálum. Hann gegndi þeirri stöðu meðal annars meðan Parísarsamningurinn var samþykktur. Á árunum 2000-2007 var hann vísindaráðgjafi bresku stjórnarinnar og lagði þá áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld um allan heim brygðust við loftslagsbreytingum.
Málstofan á Hringborði norðurslóða hefst kl 10:50 á laugardag í Silfurbergi í Hörpu. Umhverfis- og auðlindaráðherra og Sir David King flytja báðir erindi áður en ráðherra spyr King út úr varðandi loftslagsmál. Enn fremur verður opið fyrir spurningar úr sal.