Hoppa yfir valmynd
24. október 2018 Menningar-٫ nýsköpunar- og háskólaráðuneytið

Reyndi á samskipti Íslands og Norðurlandanna í hruninu

Reyndi á samskipti Íslands og Norðurlandanna í hruninu - myndHÍ / Kristinn Ingvarsson

Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands gekkst fyrir málþingi í tengslum við útkomu nýrrar bókar Baldurs Þórhallssonar prófessors í stjórnmálafræði um samskipti og stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Í bók hans Small States and Shelter Theory: Iceland’s External Affairs er fjallað um eina yfirgripsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á pólitískum, efnahagslegum og félagslegum samskiptum Íslands við nágrannaríki og alþjóðastofnanir. Kenningar smáríkjafræða og alþjóðasamskipta gera ráð fyrir að smærri ríki njóti jafnan skjóls af hálfu stærri eininga í alþjóðakerfinu. Á málþinginu var sérstaklega fjallað um hvort Ísland njóti skjóls stærri ríkja og alþjóðastofnana nú um stundir og hvar landið muni leita skjóls í framtíðinni.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tók þátt í pallborðsumræðum málþingsins og fjallaði í sínu innleggi um samskipti Íslands við Norðurlöndin. Hún gat þess að Norðurlöndin og Ísland hefðu átt virka samvinnu á sviðum menningar- og félagsmála um árabil og á vettvangi stjórnmálanna hefði samstarf Norðurlandaráðsins sýnt sitt mikilvægi og sannað. Löndin ættu einnig í góðu samstarfi gegnum sameiginlega fleti utanríkisþjónustunnar. Efnahagslega hefðu Norðurlöndin einnig verið Íslendingum stuðningur og skjól í ljósi sögunnar, meðal annars gegnum sameiginlegan vinnumarkað. Undantekning þessa væri þó í efnahagshruninu þar sem Norðurlöndin hefðu ekki áttað sig á umfangi vandans né staðið með Íslendingum. Þannig töfðu Norðurlöndin lánafyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í tengslum við þær deilur sem Ísland átti við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innstæðu reikninga (e. Icesave) og tóku þar með afstöðu með þeim fremur en Íslendingum.

„Við eigum í góðu og gefandi samstarfi við Norðurlöndin á mörgum sviðum og horfum til frændþjóða okkar, til að mynda í mennta- og velferðarmálum. Það er mikilsvert fyrir okkur að þekkja vel þá sameiginlega hagsmuni sem við deilum með nágrönnum okkar í Skandinavíu. Rödd Norðurlandanna er sterk á alþjóðavettvangi og gegnum það samstarf eigum við aðkomu að fleiri málum. Samskiptin í fjármálahruninu voru að mörgu leyti frávik, við treystum enn á gott samstarf við Norðurlöndin í blíðu og stríðu en vitum þó að ríki eins og Ísland þurfa að eiga bandamenn víðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Baldur Þórhallsson flutti erindi á málþinginu um fyrrgreinda bók sína en þar töluðu einnig Þorsteinn Kristinsson doktorsnemi við Háskólann í Lundi og Sverrir Steinsson kennari við Háskóla Íslands. Í pallborðsumræðunum tóku þátt auk mennta- og menningarmálaráðherra meðal annars þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, og Georg Kr. Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti lokaávarp málþingsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta