Full greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna kaupa á innöndunartækjum
Sjúklingar með slímseigjusjúkdóm (Cystic Fibrosis) munu hér eftir fá innöndunartæki og nauðsynlega fylgihluti, sér að kostnaðarlausu samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Að jafnaði fæðist eitt barn, annað hvert ár, með þennan alvarlega lungnasjúkdóm og eru innöndunartækin lífsnauðsynleg þessum sjúklingum.
Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga vegna innöndunartækja fyrir þennan sjúklingahóp hefur almennt numið 70%. Nauðsynlegt er að endurnýja tækin og fylgihluti reglulega. Tækin skipta sköpum fyrir líf og heilsu viðkomandi sem þurfa að nota þau tæki daglega og í flestum tilfellum oftar en einu sinni á dag.
Umboðsmaður barna hefur beint áskorun til velferðarráðuneytisins um að fella niður greiðsluþátttökuna. Slík áskorun hefur einnig borist frá samtökum um Cystic Fibrosis á Íslandi. Bent hefur verið á að ýmsar aðrar öndunarvélar séu niðurgreiddar að fullu. Enn fremur hefur verið vísað til þeirrar skyldu stjórnvalda að veita langveikum börnum þá aðstoð og þjónustu sem þau þurfa á að halda án endurgjalds, í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna.
Fimm sjúklingar hér á landi eru nú með innöndunartæki vegna slímseigjusjúkdóms með niðurgreiðslu sjúkratrygginga. Áætlaður kostnaðarauki sjúkratrygginga sem leiðir af hækkun greiðsluþátttöku vegna innöndunartækja og fylgihluta úr 70% í 100% er innan við hálf milljón króna á ári. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir þetta réttlætismál sem skipti miklu máli fyrir þá sem í hlut eiga.