Utanríkisráðherra fundaði með breskum ráðamönnum um Brexit
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti í vikunni fundi með breskum ráðamönnum um framgang samninga vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
Guðlaugur Þór hélt utan í fyrradag og hitti þá Dominic Raab, útgöngumálaráðherra Bretlands. „Við ræddum stöðu og horfur í Brexit-málum. Við vorum sammála um mikilvægi þess að tryggja áframhaldandi góð samskipti Íslands og Bretlands, hver sem niðurstaða samninganna við Evrópusambandið verður,“ sagði Guðlaugur Þór að fundi loknum. „Íslensk stjórnvöld hafa þegar hafið samtal við bresk stjórnvöld um ýmis lykilsvið sem snerta útgönguna. Við viljum gjarnan ræða þessi mál enn nánar til að vera sem best undirbúin þegar Bretar ganga út úr ESB.“
Í gær átti Guðlaugur Þór fundi með Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, og Michael Gove, ráðherra umhverfis-, byggða- og matvælamála. „Bretland er einn allra mikilvægasti markaður Íslands og því leggjum við mikla áherslu á að ná yfirgripsmiklum framtíðarsamningi við Breta þar sem full fríverslun með sjávarafurðir er í fyrirrúmi," sagði Guðlaugur Þór.
Til viðbótar við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og framtíðarviðskipti landanna ræddu Guðlaugur Þór og Liam Fox stöðu og horfur í alþjóðaviðskiptum. Sammæltust þeir um mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðaviðskiptakerfið. Á fundinum með Michael Gove ræddu ráðherrarnir einnig samráð á sviði fiskveiðimála, svo og norðurslóðamál sem bresk stjórnvöld hafa sýnt vaxandi áhuga.
Þá hitti Guðlaugur Þór Emily Thornberry, þingmann Verkamannaflokksins og aðstoðarforsætisráðherra í skuggaráðuneyti flokksins.