Áætluð framlög Jöfnunarsjóðs til útgjaldajöfnunar nema tæpum 10 milljörðum árið 2019
Áætluð útgjaldajöfnunarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga munu nema alls 9.775 m.kr. árið 2019. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar þess efnis, sbr. b. liðar 12. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, að fjárhæð 9.775 m.kr.
Til úthlutunar nú koma 9.200 m.kr. samkvæmt A – hluta framlaganna og 575 m.kr. samkvæmt B – hluta framlaganna vegna skólaaksturs úr dreifbýli eða samtals 9.775 m.kr. Í desember koma til úthlutunar 175 m.kr. til viðbótar vegna skólaaksturs úr dreifbýli á grundvelli umsókna sveitarfélaga vegna íþyngjandi kostnaðar við aksturinn á árinu. Jafnframt er áætlað að 50 m.kr. verði úthlutað á árinu 2019 vegna akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli.
Áætlunin verður tekin til endurskoðunar í apríl 2019 á grundvelli íbúafjölda 1. janúar 2019. Framlögin verða greidd til sveitarfélaga mánaðarlega en 10 prósentum er þó haldið eftir af áætluðum framlögum til að mæta því ef ráðstöfunarfjármagn sjóðsins verður minna eða útgjöld meiri en áætlað var. Uppgjör framlaganna fer fram í desember 2019.