Hoppa yfir valmynd
29. október 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra sækir Northern Future Forum og Norðurlandaráðsþing í Osló

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur þátt í Northern Future Forum (NFF) sem haldið verður í Osló 29. til 31. október. Þetta er í sjötta skiptið sem boðað er til funda undir merkjum Northern Future Forum. Forsætisráðherrar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Bretlands koma þar saman til skoðanaskipta og hafa sér til fulltingis fulltrúa úr atvinnulífi og háskólasamfélagi frá löndunum níu. 

Þróun og nýsköpun á sviði heilsutækni og heilbrigðismála er efni fundarins í ár. Þrír sérfræðingar af sviði heilbrigðistæknimála eru í föruneyti forsætisráðherra að þessu sinni.

Norðurlandaráðsþing verður sett þriðjudaginn 30. október að loknu NFF og mun forsætisráðherra taka þátt í störfum þingsins og ráðherrafundum þeim tengdum. Forsætisráðherra mun taka þátt í þemaumræðu forsætisráðherranna um utanaðkomandi ógnir við lýðræði og samfélag á upphafsdegi þingsins. Þá mun forsætisráðherra kynna formennskuáætlun Íslands sem tekur við forsæti Norrænu ráðherranefndarinnar á komandi ári.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna munu síðan funda í eigin ranni þar sem m.a. verður rætt um alþjóðamál og erlendar fjárfestingar í mikilvægum innviðum miðvikudaginn 31. október. Í framhaldi af því funda forsætisráðherrarnir með leiðtogum Grænlands, Færeyja og Álandseyja um ýmis norræn málefni.

Þá mun Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, eiga tvíhliða fundi með Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, og Theresu May, forsætisráðherra Bretlands.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin
16. Friður og réttlæti
9. Nýsköpun og uppbygging
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta