Hoppa yfir valmynd
29. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Ráðstefna Atlantshafsbandalagsins um afvopnun og takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna hafin 

Þátttakendur á ráðstefnunni í morgun - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á afvopnun og frið í ræðu sinni á ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins um takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna og afvopnun sem hófst í Reykjavík í morgun. Varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins flutti einnig ávarp við upphaf ráðstefnunnar. 

Sérfræðingar og háttsettir embættismenn frá yfir fimmtíu ríkjum, alþjóðasamtökum og stofnunum sitja nú árlega ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins um afvopnunarmál og takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna. Þetta er í fjórtánda sinn sem ráðstefnan fer fram og að þessu sinni kom í hlut Íslands að halda hana. Grand hótel í Reykjavík er vettvangur ráðstefnunnar, sem stendur yfir í tvo daga.  Þar verður meðal annars rætt um framtíð gildandi afvopnunarsamninga á borð við samning um takmörkun á útbreiðslu kjarnavopna (NPT) en líka hvernig koma megi í veg fyrir útbreiðslu eldflauga- og flugskeyta og efnavopnaárásir ríkja og hryðjuverkasamtaka.

Guðlaugur Þór Þórðarson flytur ávarp á ráðstefnunni í morgun

Mynd: Utanríkisráðuneytið. 

Í ræðu sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra flutti við upphaf ráðstefnunnar í morgun lagði hann áherslu á þýðingu NPT-samningsins fyrir kjarnorkuafvopnun í heiminum á þeirri hálfu öld sem liðin er frá undirritun hans. „Ef takmarkið um kjarnavopnalausan heim á einhvern tímann að nást verða þau ríki sem eiga slík vopn að standa við skuldbindingar sínar og þau ríki sem nú standa utan samningsins að undirrita hann. Við núverandi aðstæður ætti alþjóðasamfélagið fyrst og fremst að einbeita sér að því að gildandi samningar séu virtir,“ sagði Guðlaugur Þór í ávarpi sínu.

Auk Guðlaugs Þórs fluttu ávörp þau Rose Gottemoeller, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, og Alejandro Alvargozález, aðstoðarframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins á sviði stjórn- og öryggismála en hann er jafnframt fundarstjóri á ráðstefnunni. Á meðal þátttakenda á ráðstefnunni má nefna Lassina Zerbo, framkvæmdastjóra skrifstofu samningsins um allsherjarbann við tilraunum með kjarnorkuvopn, William Alberque, sem stýrir sérstakri deild Atlantshafsbandalagsins um afvopnun og takmarkanir á útbreiðslu gereyðingarvopna, og Izumi Nakamitsu, erindreka Sameinuðu þjóðanna í afvopnunarmálum.

Rose Gottemoeller, varaframkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins


Gottemoeller lagði í sínu ávarpi áherslu á að Atlantshafsbandalagið styddi eindregið afvopnunarsamninga sem skiluðu árangri og þær alþjóðlegu skuldbindingar sem fylgdu þessum samningum. Hún áréttaði að NPT-samningurinn væri einn mikilvægasti alþjóðasamningur sinnar tegundar og Atlantshafsbandalagið gæti því ekki stutt afvopnunarráðstafanir sem tækju ekki mið af aðstæðum í heiminum eða græfu undan NPT-samningnum með einhverjum hætti.

Í tengslum við ráðstefnu Atlantshafsbandalagsins stendur Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, í samstarfi við utanríkisráðuneytið og forsætisráðuneytið, fyrir málþinginu „Leiðir til afvopnunar á tímum aukinnar óvissu“. Á málþinginu, sem fram fer síðdegis á þriðjudag í fundarsal Þjóðminjasafnsins, verður fjallað um leiðir til að fækka gereyðingarvopnum og mikilvægi alþjóðasamstarfs í því samhengi. Þá verður sjónum beint að hlutverki alþjóðlegra samtaka og möguleikum þeirra til að hafa áhrif.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta