Hoppa yfir valmynd
30. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Ræddu réttindi íslenskra borgara í Bretlandi eftir Brexit

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, áttu tvíhliða fund í Ósló í dag þar sem útganga Bretlands úr Evrópusambandinu var efst á baugi. Sterk tengsl eru á milli Íslands og Bretlands. Hefur mikið og gott samstarf átt sér stað á milli bæði embættismanna og stjórnmálamanna til að tryggja að samskipti ríkjanna byggi áfram á traustum grunni.

„Íslensk stjórnvöld nálgast Brexit með uppbyggilegum hætti og leggja áherslu á að hagstæðir samningar náist á milli Bretlands og ESB. Þó er nauðsynlegt að vera undirbúin fyrir þann möguleika að Bretland hverfi úr ESB án samnings. Við höfum unnið að því hörðum höndum að tryggja hagsmuni og réttindi Íslendinga og íslenskra fyrirtækja í kjölfar útgöngu Bretlands úr ESB og EES,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Á fundinum í Ósló í dag sammæltust þær Katrín og May um að tryggja rétt íslenskra ríkisborgara í Bretlandi og breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES jafnvel þó svo ólíklega færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB.

„Þetta er stórt og ánægjulegt skref í viðræðum okkar við bresk stjórnvöld og merki um gagnkvæman vilja til að leita lausna undir öllum kringumstæðum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra þegar niðurstaða fundar forsætisráðherranna lá fyrir.

Ýmis atriði sem Bretar semja um við ESB vegna fyrirhugaðrar útgöngu úr sambandinu varða einnig Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES. Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Noreg og Liechtenstein, hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum við bresk stjórnvöld með það að markmiði að endurspegla þessa þætti í samningi sín á milli. Þar má einna helst nefna réttindi borgara til áframhaldandi dvalar og búsetu eftir útgöngu. Viðræður við bresk stjórnvöld hafa gengið vel og eru langt á veg komnar.

Tíðir fundir hafa átt sér stað á milli íslenskra og breskra ráðamanna. Nýlega fundaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra með Dominic Raab, útgöngumálaráðherra Bretlands, Liam Fox, utanríkisviðskiptaráðherra Bretlands, og Michael Gove, ráðherra umhverfis-, byggða- og matvælamála. Þá átti Guðlaugur Þór fund með Jeremy Hunt, utanríkisráðherra Bretlands, fyrr í haust. Mikill samhljómur er um að tryggja áframhaldandi góð samskipti Íslands og Bretlands og að hagstæð viðskipti geti haldið áfram


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta