Umbætur á samstarfi Norðurlandanna halda áfram
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna fundaði með öðrum norrænum samstarfsráðherrum í morgun. Á fundinum, sem var haldinn í tengslum við 70. þing Norðurlandaráðs í Osló, ákváðu samstarfsráðherrarnir að halda áfram að breyta og bæta norrænt samstarf þannig að það nýtist íbúum sem best.
Á næsta ári verður Ísland í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og á þeim vettvangi munu samstarfsráðherranir ljúka við framtíðarstefnumörkun sem felur meðal annars í sér enn skýrari forgangsröðun og mælanleg markmið í samstarfinu.
„Mikilvægt er að slagkraftur norræna samstarfsins verði sem mestur til að mæta áskorunum framtíðar,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlandanna á fundinum. Jafnframt hvatti hann til þess að Norræna ráðherranefndin hraðaði umbótastarfi sínu enda væri norrænt samstarf þýðingarmikið fyrir öll löndin.
Norðurlönd verði leiðandi í nýsköpun
Á fundinum ræddu ráðherrarnir nýjar tillögur um hvernig bæta má umhverfi nýsköpunar og hvernig Norðurlöndin geta verið leiðandi svæði í heiminum fyrir sprotafyrirtæki. Fram kom að Norðurlöndin geta unnið betur saman í þágu nýsköpunarfyrirtækja og að sameiginlegt kynningarstarf út á við hefur ótvírætt skilað árangri.
Ráðherrarnir samþykktu fjárlög fyrir Norrænu ráðherranefndina fyrir árið 2019 og fóru yfir verkefni sem þjóna því markmiði að auðvelda íbúum að flytja á milli Norðurlandanna, stunda nám, stofna fyrirtæki og margt fleira. Þá var ákveðið að upplýsingaþjónustan Halló Norðurlönd, sem starfrækt er á öllum Norðurlöndunum og fær yfir um eina milljón heimsókna á ári, fái stærra hlutverk og veiti einnig upplýsingar um stofnun fyrirtækja og annað sem tengist fyrirtækjarekstri.
Samstarfsráðherra mun síðar í dag funda með samstarfsráðherrum Færeyja og Grænlands, og forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins. Á morgun fundar hann með forsætisnefnd Norðurlandaráðs og heimsækir Norrænu nýsköpunarmiðstöðina og aðrar norrænar stofnanir í Osló.
Síðdegis í dag verður formennskuáætlun Íslands í Norrænu ráðherranefndinni kynnt á Norðurlandaráðsþingi en Ísland tekur formlega við um næstu áramót.