Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2018 Utanríkisráðuneytið

Fríverslunarviðræðum EFTA og Indónesíu lokið

Í dag lauk síðustu samningalotu Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, og Indónesíu um gerð fríverslunarsamnings en viðræður milli samningsaðila hafa staðið nær óslitið frá árinu 2011. Því er það ánægjuefni að samningum er nú lokið að mestu en einungis örfá tæknileg atriði standa eftir. Greint var frá þessum áfanga í fréttatilkynningu EFTA í morgun.

Samningurinn tekur m.a. til vöru- og þjónustuviðskipta, fjárfestinga, opinberra útboða, hugverkaréttinda og sjálfbærrar þróunar. Hann tryggir Íslandi greiðan tollfrjálsan aðgang fyrir nær allar helstu útflutningsafurðir til Indónesíu, þ.m.t. fisk og sjávarafurðir, iðnaðar- og tæknivörur sem og landbúnaðarafurðir. Indónesía er fjórða fjölmennasta ríki heims með um 260 milljónir íbúa. 

„Það er fagnaðarefni að viðræðum EFTA og Indónesíu sé nú lokið og undirritun nýs fríverslunarsamnings standi fyrir dyrum. Þessi samningur tryggir íslenskum útflytjendum betri markaðsaðgang að þessu fjölmenna ríki og í honum felast því ýmis tækifæri,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra um niðurstöðuna. 

Ákvæði samningsins um þjónustuviðskipti felur meðal annars í sér bætt aðgengi fyrir sérfræðinga á sviði endurnýjanlegrar orku, sér í lagi jarðhita sem er víða að finna í Indónesíu. 

Í fyrra nam vöruútflutningur frá Íslandi til Indónesíu um 77 milljónum króna. Mest var flutt út af frystum makríl og  loðnu. Á sama tíma nam innflutningur hingað frá Indónesíu rétt tæpum milljarði króna. 

Stefnt er að því að samningurinn verði undirritaður fyrir lok árs. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta