Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2018 Innviðaráðuneytið

Ný heildarlöggjöf um póstþjónustu lögð fram á Alþingi

Frumvarp til nýrra laga um póstþjónustu, sem ráðherra mælti fyrir á Alþingi í dag, felur í sér afnám einkaréttar á póstþjónustu og að tryggja skuli aðgang að alþjónustu, skilgreindri lágmarksþjónustu óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um póstþjónustu frá árinu 2002. Verði frumvarpið að lögum taka þau gildi 1. janúar 2020.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í framsöguræðu sinni á Alþingi að miklar breytingar hafi orðið á eðli og rekstrarumhverfi póstþjónustu á síðustu árum. Með tilkomu nýrrar tækni og samskiptalausna hafi dregið verulega úr vægi hefðbundinnar póstþjónustu. Almennum bréfasendingum hafi til að mynda fækkað úr tæpum 60 milljónum árið 2008 í rúm 20 milljón 2017. Ráðherra sagði póstþjónustu þó áfram gegna mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulífið, og að hún verði áfram nauðsynlegur þáttur í netverslun. Markmið laganna væri að tryggja hagkvæma og áreiðanlega póstþjónustu fyrir allt landið m.a. með því að tryggja aðgang að alþjónustu, lágmarksþjónustu sem skilgreind væri hverju sinni, og að stuðla að samkeppni á markaði.

 

Póstþjónusta ekki lengur leyfisskyld
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki lengur leyfisskyld starfsemi hér á landi svo sem verið hefur heldur skráningarskyld. Lögaðilar innan EES-svæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fá því almenna heimild til að veita póstþjónustu hér á landi að uppfylltum skilyrðum ákvæða frumvarpsins.

Öll aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa þegar afnumið einkarétt ríkis á póstþjónustu. Þannig afnam Noregur einkaréttinn árið 2016 svo dæmi sé tekið og yrði Ísland síðast til að afnema einkaréttinn verði frumvarpið að lögum.

Alþjónusta tryggi lágmarksþjónustu
Í frumvarpinu er gerð grein fyrir alþjónustu en sú þjónusta er skilgreind sem tiltekin lágmarksþjónusta sem allir notendur póstþjónustu á landinu eiga rétt á, óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innanlands og til annarra landa. Lagt er til að sama þjónusta skuli standa þeim til boða sem búa við sambærilegar aðstæður og að alþjónusta taki mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda. Í alþjónustu felst aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum en einnig skylda til að tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði. Ekki er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við póstútburð í fyrstu frá því sem nú er og áfram miðað við útburð tvo virka daga í viku.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að ráðherra hafi þrjár leiðir til að velja þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu. Í fyrsta lagi með samningi við tiltekinn póstrekanda með almenna heimild, í öðru lagi með útnefningu póstrekanda eða í þriðja lagi með útboði. Sigurður Ingi sagði í framsögu sinni á Alþingi um þetta efni: „Það liggur fyrir að útboð er ekki vænlegt strax, verði frumvarpið að lögum, og líklegt þykir að samningaleiðin verði reynd áður en gripið verði til útnefningar. Í frumvarpinu er byggt á því að ákjósanlegast sé að alþjónusta verði einfaldlega veitt á markaðslegum forsendum.“

Óskir um að afþakka fjöldapóst skulu virtar
Sérstakt ákvæði um óumbeðnar fjöldasendingar er nýmæli í frumvarpinu. Lagt er til að póstrekendum verði skylt að virða merkingar sem kveða á um að viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum. Þetta mun þó ekki gilda um tilkynningar veitufyrirtækja, kynningarefni stjórnvalda vegna kosninga, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa og loks tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi. Áfram er gert ráð fyrir að póstrekendur haldi skrá yfir þá sem vilja ekki fjöldasendingar.

Ísland ljóstengt
Átaksverkefnið Ísland ljóstengt er eitt af lykilverkefnum í byggðaáætlun stjórnvalda en markmið þess er að styrkja ljósleiðaravæðingu í dreifbýli um allt land og bæta fjarskipti einstaklinga og fyrirtækja utan þéttbýlis. Þannig næst að jafna aðgengi landsmanna að hvers konar stafrænni þjónustu, m.a. þeim sem áður voru aðeins aðgengilegar með hefðbundnum pósti. Stefnt er að undirritun síðustu samninga við sveitarfélög á grundvelli Ísland ljóstengt í ársbyrjun 2020. Þá mun ríkið hafa skuldbundið allt að 3,1 milljarða króna í verkefnið á móti sambærilegu eða hærra samanlögðu framlagi sveitarfélaga, notenda og fjarskiptafyrirtækja.

Frumvarp til laga um póstþjónustu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta