Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2018 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra ásamt viðskiptasendinefnd til Indlands

Frá Nýju-Delí - myndWikimedia Commons

Í tilefni af fyrsta beina áætlunarflugi frá Íslandi til Suður-Asíu heldur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra til Indlands með WOW air 6. desember ásamt viðskiptasendinefnd. 

Efnt verður til Íslandskynningar og viðskiptaþings um samstarfstækifæri milli Íslands og Indlands í Nýju-Delí föstudaginn 7. desember. Þar verður áhersla lögð á ferðaþjónustu, matvæli og hátækni, þ.á.m. á sviði endurnýjanlegrar orku. 

Íslenskum fyrirtækjum býðst nú að slást í för með sendinefndinni og taka þátt í þessum viðburði. Hægt verður að nýta sértilboð á fyrsta beina áætlunarflugi WOW air beint til Nýju-Delí. Áhugasamir um þátttöku eru beðnir um að hafa samband við Þorleif Þór Jónsson, annað hvort með tölvupósti eða í síma 511 4000, fyrir föstudaginn 16.  nóvember nk.

Sendiráðið Íslands í Nýju-Delí var formlega opnað 26. febrúar 2006. Auk Indlands eru umdæmislönd sendiráðsins Bangladess, Nepal og Srí Lanka. Viðskiptatækifærin á Indlandi eru einkum á sviði endurnýjanlegrar orku, hátækni, ferðaþjónustu og þjónustu við kvikmyndaiðnaðinn.

Í fyrra stóð sendiráðið fyrir átján viðskipta- og menningarviðburðum í helstu stórborgum Indlands. Sendiráðið aðstoðar við að afla heimilda fyrir innflutningi á lambakjöti og sjávarafurðum,. Þá hefur starfsfólk sendiráðsins haldið fjölmörg erindi og veitt viðtöl um viðskipti, fjárfestingar, loftslagsmál, norðurslóðamál og tengsl þeirra við Himalayasvæðið, og jafnréttismál en sendiráðið leggur áherslu á að tengja íslenskar og indverskar konur í viðskipta- og atvinnulífinu.

Sendiráðið hefur staðið fyrir ferðaþjónustukynningum og tökur indverskra kvikmynda á Íslandi hafa vakið athygli á landi og þjóð enda hefur sendiráðið góð tengsl við indverska kvikmyndaiðnaðinn og heldur reglulega kynningar um Ísland sem eftirsóknarverðs tökustaðar í helstu kvikmyndaborgum Indlands.

Þá hefur indverskum ferðamönnum á Íslandi fjölgað árlega um fimmtíu prósent undanfarin þrjú ár og nú þegar til stendur að hefja beint flug á milli Íslands og Indlands má gera ráð fyrir að þeim muni fjölga enn, auk þess sem fleiri Íslendingar eiga án efa eftir að leggja leið sína til Indlands.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta