Ráðherra ásamt viðskiptasendinefnd til Indlands
Í tilefni af fyrsta beina áætlunarflugi frá Íslandi til Suður-Asíu heldur Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra til Indlands með WOW air 6. desember ásamt viðskiptasendinefnd.
Efnt verður til Íslandskynningar og viðskiptaþings um samstarfstækifæri milli Íslands og Indlands í Nýju-Delí föstudaginn 7. desember. Þar verður áhersla lögð á ferðaþjónustu, matvæli og hátækni, þ.á.m. á sviði endurnýjanlegrar orku.
Íslenskum fyrirtækjum býðst nú að slást í för með sendinefndinni og taka þátt í þessum viðburði. Hægt verður að nýta sértilboð á fyrsta beina áætlunarflugi WOW air beint til Nýju-Delí. Áhugasamir um þátttöku eru beðnir um að hafa samband við Þorleif Þór Jónsson, annað hvort með tölvupósti eða í síma 511 4000, fyrir föstudaginn 16. nóvember nk.
Sendiráðið Íslands í Nýju-Delí var formlega opnað 26. febrúar 2006. Auk Indlands eru umdæmislönd sendiráðsins Bangladess, Nepal og Srí Lanka. Viðskiptatækifærin á Indlandi eru einkum á sviði endurnýjanlegrar orku, hátækni, ferðaþjónustu og þjónustu við kvikmyndaiðnaðinn.
Í fyrra stóð sendiráðið fyrir átján viðskipta- og menningarviðburðum í helstu stórborgum Indlands. Sendiráðið aðstoðar við að afla heimilda fyrir innflutningi á lambakjöti og sjávarafurðum,. Þá hefur starfsfólk sendiráðsins haldið fjölmörg erindi og veitt viðtöl um viðskipti, fjárfestingar, loftslagsmál, norðurslóðamál og tengsl þeirra við Himalayasvæðið, og jafnréttismál en sendiráðið leggur áherslu á að tengja íslenskar og indverskar konur í viðskipta- og atvinnulífinu.
Sendiráðið hefur staðið fyrir ferðaþjónustukynningum og tökur indverskra kvikmynda á Íslandi hafa vakið athygli á landi og þjóð enda hefur sendiráðið góð tengsl við indverska kvikmyndaiðnaðinn og heldur reglulega kynningar um Ísland sem eftirsóknarverðs tökustaðar í helstu kvikmyndaborgum Indlands.
Þá hefur indverskum ferðamönnum á Íslandi fjölgað árlega um fimmtíu prósent undanfarin þrjú ár og nú þegar til stendur að hefja beint flug á milli Íslands og Indlands má gera ráð fyrir að þeim muni fjölga enn, auk þess sem fleiri Íslendingar eiga án efa eftir að leggja leið sína til Indlands.