Bæta á réttindi og eftirlit með aðbúnaði fatlaðs fólks
Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, skrifar í dag undir sex reglugerðir sem allar snúa að því að bæta þjónustu við fatlaða og tryggja aukið eftirlit með aðbúnaði á heimilum og stofnunum sem þjóna fötluðum.
Markmið ráðuneytisins er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu hverju sinni. Fatlað fólk skuli fá nauðsynlegan stuðning til að njóta fullra mannréttinda til jafns við aðra og sjálfstæðs lífs á eigin forsendum.
Setning reglugerðanna er viðbragð við könnunum og fréttum undanfarinna ára þar sem alvarlegar brotalamir hafa komið í ljós varðandi aðbúnað fatlaðs fólks. Unnið hefur verið að reglugerðunum í ráðuneytinu um nokkra hríð og haft samráð við fjölda hagsmunaaðila sem áttu fulltrúa í nokkrum af þeim starfshópum sem skipaðir voru til að taka þátt í vinnunni.
Alls tóku 46 utanaðkomandi fulltrúar frá ýmsum samtökum þátt í störfum hópanna, þar á meðal frá Þroskahjálp, Öryrkjabandalagi Íslands, NPA-miðstöðinni og Átaki, félagi fólks með þroskahömlun.
Reglugerðirnar eru settar í kjölfar nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem tóku gildi 1. október síðastliðinn.
Þær reglugerðir sem ráðherra undirritar í dag eru eftirfarandi:
- Reglugerð um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu.
- Reglugerð um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra þjónustu- og rekstraraðila sem veita þjónustu við fatlað fólk.
- Reglugerð um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum.
- Reglugerð um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir.
- Reglugerð um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
- Reglugerð um breytingu á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, nr. 370/2016.