Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Notendur velferðarþjónustu hafa meiri væntingar og fatlaðir eiga skilið að lifa sjálfstæðu lífi

Þjóðin stendur frammi fyrir stórum ákvörðunum um hvernig standa eigi að framkvæmd velferðarþjónustunnar. Sá aukni fjöldi fólks sem mun þurfa á aðstoð velferðarkerfisins að halda, vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar, mun krefjast meiri gæða og lausna sem eru sérsniðnar að hverjum og einum. Þetta er meðal þess sem Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sagði í ræðu sinni við upphaf ráðstefnunnar Tímamót í velferðarþjónustu sem hófst á Nordica hótelinu í morgun. Á ráðstefnunni sem ber undirtitilinn „Sjálfstæði, nýsköpun, samvinna“ verður einnig fjallað um réttindi fatlaðs fólks og þjónustu ríkis og sveitarfélaga við þennan hóp.

Ásmundur Einar sagði Íslendinga hafa gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar, meðal annars með því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, og í því felist til að mynda að tryggja þurfi að fatlað fólk geti lifað sjálfstæðu lífi. Í ræðu hans kom fram að á vettvangi Stjórnarráðsins, undir forystu velferðarráðuneytisins, væri nú unnið að skýrslugerð til Sameinuðu þjóðanna um hvernig tekist hefði að uppfylla ákvæði samningsins en hann var fyrst fullgiltur fyrir rúmum tveimur árum. Um það þurfi að eiga sér stað gagnrýnin og uppbyggjandi umræða og á ráðstefnunni í dag gefist almenningi tækifæri til að tjá sig um stöðuna á framkvæmd samningsins hér á landi.

Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu, sagði stuðning við fatlaðan einstakling vera grunnforsendu lífsgæða og þeirrar upplifunar að hann eigi sér sjálfstætt líf. Um sé að ræða stórt verkefni sem verði ekki að raunveruleika nema allt samfélagið leggi sitt af mörkum. Þór kom einnig inn á þörf fyrir nýsköpun innan velferðarþjónustunnar. Það þurfi að „búa til lausnir með fólki en ekki fyrir fólk,“ sagði Þór.

Ráðstefnan er öllum opin og stendur til kl.15.30 í dag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta