Opið samráð um endurskoðun reglugerðar ESB um bókunarkerfi í flugi
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð vegna endurskoðunar á reglugerð um bókunarkerfi í flugi (80/2009). Endurskoðunin fer fram í samræmi við stefnu framkvæmdastjórnarinnar í flugmálum sem var kynnt í desember 2015 og er ætlað að auka samkeppnishæfni og sjálfbærni flugsamgangna og tengdra greina í ESB.
Framkvæmdastjórnin mun taka saman öll svör sem borist hafa þegar samráðstímabili lýkur 10. desember nk. og hafa til hliðsjónar við endurskoðun á reglugerðinni. Öllum er velkomið að taka þátt í samráðinu. Markmiðið er að tryggja að fleiri en þeir sem reglugerðin tekur beinlínis til, svo sem almennir borgarar, hafi tækifæri á að segja sína skoðun.
Þeir sem eiga mestra hagsmuna að gæta í þessum efnum, flugfélög og ferðaskrifstofur, fá boð til að taka þátt í öðru samráðsferli þar sem þátttakendur hafa verið sérstaklega valdir til þátttöku. Þeim er þó einnig heimilt að taka þátt í almenna samráðsferlinu en slík þátttaka mun þó ekki auka vægi þeirra er kemur að úrvinnslu.