Árangur og áskoranir í jafnréttismálum innan Stjórnarráðsins
Úttekt á launamun kynjanna og leiðréttingar því samfara, markvissar aðgerðir og áætlun gegn kynferðislegri áreitni og annarri ótilhlýðilegri háttsemi og áhersla á jafna kynjaskipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum ríkisins eru meðal verkefna sem hafa verið í forgangi í vinnu jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins síðustu misseri. Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu um störf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins á tímabilinu 2015-2017.
Jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins hafa tekið saman skýrslu um störf sín á tímabilinu 2015-2017. Jafnréttisfulltrúar hafa starfað í Stjórnarráðinu frá árinu 2000 og starfa þeir nú á grundvelli 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Hlutverk þeirra er að hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviðum ráðuneyta sinna og stofnana sem undir þau heyra, auk þess að vinna að kynjasamþættingu á málefnasviðum ráðuneytanna. Jafnréttisfulltrúar hafa sérstakar starfsreglur sem kveða á um hlutverk þeirra en að auki eiga þeir að hafa umsjón með framkvæmd jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins og verkefnum í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum.
Skýrslan sem hér er birt byggist á starfsáætlun jafnréttisfulltrúanna sem samþykkt var í upphafi árs 2015. Markmið áætlunarinnar er að skýra hlutverk jafnréttisfulltrúa, skipuleggja og samhæfa starf þeirra auk þess að veita yfirsýn yfir þau verkefni sem eru á ábyrgð jafnréttisfulltrúa. Verkefnum starfsáætlunarinnar er skipt upp í sjö flokka og innan hvers þeirra eru nokkur verkefni, samtals 15. Á hverju ári beina jafnréttisfulltrúarnir sjónum að tilteknu þema sem þeir leggja áherslu á í störfum sínum.