Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Aðgerðir til að bregðast við lyfjaskorti

Lyfjastofnun hefur gripið til ákveðinna aðgerða til að bregðast við lyfjaskorti. Markmið þeirra er meðal annars að bæta yfirsýn stofnunarinnar yfir stöðuna á hverjum tíma og auðvelda henni þar með að grípa til ráðstafana þegar nauðsyn krefur.

Lyfjastofnun kynni í lok október nýtt fyrirkomulag sem felur í sér að apótek megi eiga birgðir óskráðra lyfja á lager án þess að þurfi að liggja fyrir samþykki stofnunarinnar til afgreiðslu undanþágulyfsins. Eftir sem áður er þó afgreiðsla undanþágulyfs háð samþykki Lyfjastofnunar. Með þessari breytingu vonast Lyfjastofnun til að afgreiðsla undanþágulyfja til sjúklinga geti gengið mun hraðar fyrir sig en áður.

Rýmri heimildir apóteka við afgreiðslu undanþágulyfja

Lyfjastofnun ákvað fyrr í þessari viku að heimila apótekum í sérstökum tilvikum að afgreiða undanþágulyf áður en formlegt samþykki stofnunarinnar liggi fyrir og er það þá afgreitt með undanþágulyfseðli á pappír. Þetta á við þegar tiltekið lyf er ekki fáanlegt í lengri tíma og brýna nauðsyn ber til að stytta enn afgreiðslutíma frá því sem er þegar seðlar á pappírsformi eru sendir með pósti. Nánar má lesa um þetta á vef Lyfjastofnunar.

Tilkynningarskylda vegna fyrirsjáanlegs lyfjaskorts

Lyfjastofnun hefur gefið út fyrirmæli sem fela í sér að markaðsleyfishöfum lyfja sem eru markaðssett á Íslandi ber nú að tilkynna til Lyfjastofnunar þegar fyrirséð er að skortur verði á tilteknu lyfi. Tilkynning þessi á að berast Lyfjastofnun með eins góðum fyrirvara og hægt er. Með þessu móti öðlast Lyfjastofnun betri yfirsýn þegar birgðaskortur á lyfjum er annars vegar og því verður auðveldara að grípa til ráðstafana í þeim tilfellum þar sem þess er þörf. Nánar má lesa um þetta á vef Lyfjastofnunar.

 

Tilkynningarhnappur fyrir almenning vegna lyfjaskorts

Lyfjastofnun vinnur að uppsetningu tilkynningarhnapps fyrir almenning þar sem hægt verður að senda nafnlausa ábendingu um lyfjaskort á vefnum. Vonast er til að þetta, til viðbótar við tilkynningar frá markaðsleyfishöfum, verði til þess að bæta yfirsýn Lyfjastofnunar þegar lyfjaskortur er annars vegar. Því verði auðveldara að bregðast við birgðaskorti ef grípa þarf til ráðstafana.

 

Lyfjastofnun Evrópu vinnur að lausnum vegna lyfjaskorts

Aðgerðarhópur sem settur var á laggirnar á vegum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) og forstjóra lyfjastofnana Evrópu (HMA), stóð fyrir vinnustofu í höfuðstöðvum EMA í London 8. og 9. nóvember síðastliðinn. Þar komu saman, auk sérfræðinga aðgerðarhópsins, fulltrúar markaðsleyfishafa, stjórnvalda, heilbrigðisstarfsmanna og almennings. Markmiðið er að leita enn frekari leiða til að takast á við og reyna að koma í veg fyrir lyfjaskort. Fulltrúi Lyfjastofnunar var meðal þátttakenda í vinnustofunni. Nánar má lesa um þetta á vef Lyfjastofnunar Evrópu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta