Heimild veitt fyrir rekstri geðhjúkrunarrýma á Akureyri
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur veitt Öldrunarheimilum Akureyrar (ÖA) heimild til reksturs þriggja hjúkrunarrýma sem verða sérstaklega ætluð til að mæta þörfum hjúkrunarsjúklinga með alvarleg geðræn vandamál.
Heimildin er veitt í samræmi við óskir stjórnenda ÖA sem telja að jafnaði þörf fyrir þrjú til fimm hjúkrunarrými á ári til að mæta þjónustuþörf hjúkrunarsjúklinga með geðræn vandamál sem ekki verður sinnt sem skyldi í almennum rýmum. Húsnæði er fyrir hendi hjá ÖA sem hentar til reksturs þessara rýma. Áætlaður viðbótarkostnaður vegna þessara breytinga nemur 1,5 milljón króna á ári fyrir hvert hjúkrunarrými.
Nýlega veitti heilbrigðisráðherra stjórnendum hjúkrunarheimilisins Markar við Suðurlandsbraut heimild til að breyta tíu almennum hjúkrunarrýmum í sérhæfð geðhjúkrunarrými: „Fagfólk hefur lengi bent á að hjúkrunarsjúklingar sem glíma við alvarlegar geðraskanir þurfa sérhæfða umönnun og þetta eru því mikilvægt skref til að bæta umönnun, aðstæður og aðbúnað fólks á hjúkrunarheimilum“ segir Svandís Svavarsdóttir.