Verkefni nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í kynningu
Nefnd um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu hefur sett drög að fyrstu tveimur verkefnum sínum í almenna kynningu í Samráðsgátt Stjórnarráðsins. Um er að ræða annars vegar greiningu nefndarinnar á tækifærum með stofnun þjóðgarðs á byggðaþróun og atvinnulíf og hins vegar tillögur nefndarinnar að helstu áherslum í atvinnustefnu þjóðgarðs á miðhálendinu.
Í tillögum nefndarinnar kemur fram að hún telur tækifærin með stofnun þjóðgarðsins fyrir byggðaþróun og atvinnulíf felast í innviðum þjóðgarðs, þjónustu innan hans, útivist/ferðaþjónustu, auðkenningu (e. branding), rekstri, rannsóknum, samræmdu valddreifðu verklagi og dreifingu ferðamanna.
Þá leggur nefndin til að helstu áherslur í atvinnustefnu lúti að samráði, öryggi og gæðum, auðkennum og mörkun (e. logo) þjóðgarðs, auðlindum og uppbyggingu, miðlun og fræðslu, umsjón, þjónustuframboði og loks gjaldtöku og samningum.
Óskað er eftir því að umsagnir vegna verkefnanna berist í samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 5. desember nk.
Drög að tillögum nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu á Samráðsgátt