Fræðsla um aðgerðir gegn mansali
Dómsmálaráðuneytið í samvinnu við sendiráð Bandaríkjanna stóð fyrir fræðslu um aðgerðir gegn mansali fyrir stofnanir sem heyra undir ráðuneytið, auk félagasamtaka sem láta sig mansalsmál varða.
Barbara Martinez saksóknari í Miami og hefur sérhæft sig í mansalsmálum og hefur mikla þekkingu og reynslu á málaflokknum. Mansalsmál eru flókin í rannsókn og afar mikilvægt að byggja upp þekkingu um þennan brotaflokk. Umfang mansals í heiminum verður sífellt ljósara og mikilvægt fyrir yfirvöld að átta sig á helstu einkennum þess.
Barbara Martinez, hélt erindi fyrir starfsfólk Vinnumálastofnunar, Útlendingastofnunar, lögreglu og ákærendur, dómara, landamæraverði og lögreglu á Keflavíkurflugvelli, auk þess sem hún hélt erindi fyrir félagasamtök og aðila sem koma að þjónustu við þolendur mansals.
Martinez fór yfir þá þætti sem einstakir eftirlitsaðilar geta greint sem vísbendingu um mansal og lagði ríka áherslu á miðlun upplýsinga milli embætta til að greina hvort grunsemdir um mansal væru á rökum reistar. Þannig sé hægt að raða saman vísbendingum sem hver um sig er ekki nægjanleg vísbending um mansal og fá heildarmynd sem geti leitt mansal í ljós. Samvinna landamæravörslu, lögreglu, skattayfirvalda og Vinnumálstofnunar geti leitt í ljós mynstur sem leiði mansal í ljós sem að öðrum kosti væri erfitt að afhjúpa.