Frumvarp um persónuupplýsingar í samráðsgátt
Dómsmálaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Um er að ræða ný heildarlög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga á sviði refsivörslu.
Frumvarpið hefur verið birt í Samráðsgátt og skal umsögnum skilað þar eigi síðar en 28. nóvember nk.
Frumvarpið mun leiða til mikilla réttarbóta á sviðinu þar sem heildarlög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hjá löggæslu- og fullnustuyfirvöldum hafa ekki áður verið sett. Markmið þess er m.a. að stuðla að því að viðkomandi yfirvöld fari með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga.
Frumvarpið tekur í miklum mæli mið af svonefndri löggæslutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 og gildir um alla vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í svonefndum löggæslutilgangi. Til lögbærra yfirvalda teljast dómsmálaráðuneytið, ríkislögreglustjóri, lögregluembættin, ríkissaksaksóknari, héraðssaksóknari, Fangelsismálastofnun, Tollstjóri og Landhelgisgæsla Íslands.
Í frumvarpinu er kveðið á um þær meginreglur sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga, reglur um þær skrár sem lögbær yfirvöld halda, miðlunarheimildir sömu yfirvalda, rétt einstaklinga til aðgangs að upplýsingum og takmarkanir á þeim rétti, auk ákvæða um öryggi og eftirlit. Efnisreglur frumvarpsins taka mið af eðli og þörfum umræddra yfirvalda en eru að öðru leyti sambærilegar þeim sem er að finna í lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.