Birting nýrra reglugerða sem lúta að þjónustu við fatlað fólk
Birtar hafa verið fimm nýjar reglugerðir félags- og jafnréttismálaráðherra sem allar snúa að því að bæta þjónustu við fatlað fólk og efla eftirlit með aðbúnaði á heimilum og stofnunum sem þjóna fötluðum. Reglugerðirnar eru settar með stoð í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir sem tóku gildi 1. október síðastliðinn.
Auk nýju reglugerðanna fimm hefur á grundvelli laganna verið gerð breyting á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk nr. 370/2016 með breytingareglugerð þar sem sérstaklega er kveðið á um meðferð umsókna um húsnæðisúrræði, biðlista, biðtíma og samráð við umsækjendur sem bíða eftir húsnæðisúrræði.
Ein þessara nýju reglugerða fjallar um starfsleyfi sem félagasamtökum sjálfseignarstofnunum og öðrum þjónustu- og rekstraraðilum sem sinna þjónustu við fatlað fólk samkvæmt lögum þar að lútandi, er skylt að hafa. Umsjón og umsýsla með starfsleyfum er á hendi Gæða- og eftirlitsstofnunar félagsþjónustu og barnaverndar sem sinnir útgáfu starfsleyfa í nafni velferðarráðuneytisins. Unnið er að gerð rafrænna eyðublaða vegna útgáfu starfsleyfanna og er áætlað að byrjað verði að taka við umsóknum 1. janúar 2019.
Reglugerðirnar sem hér um ræðir eru eftirfarandi:
- Reglugerð nr. 1039/2016 um breytingu á reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk
- Reglugerð nr. 1038/2018 um búsetu fyrir börn með miklar þroska- og geðraskanir
- Reglugerð nr. 1037/2018 um starfsemi og aðbúnað á skammtímadvalarstöðum
- Reglugerð nr. 1036/2018 um eftirlit og eftirfylgni vegna þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir
- Reglugerð nr. 1035/2018 um biðlista, forgangsröðun og úrræði á biðtíma eftir þjónustu
- Reglugerð nr. 1033/2018 um starfsleyfi til félagasamtaka, sjálfseignarstofnana og annarra þjónustu- og rekstraraðila sem veita þjónustu við fatlað fólk