Bætt stafræn þjónusta hins opinbera með innleiðingu Straumsins
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur undirritað samning við NIIS stofnunina (Nordic Institute for Interoperability Solutions) um samstarf við Eistland og Finnland um að hefja notkun gagnabrautarinnar Straumsins (X-Road). Með þessu batnar samvirkni milli upplýsingakerfa stofnana, svo ekki þarf lengur að veita sömu upplýsingar á fleiri en einum stað og hið opinbera þarf ekki að óska eftir upplýsingum frá einstaklingum og fyrirtækjum sem það býr þegar yfir.
„Ríkið er að styrkja miðlægu þjónustugáttina Ísland.is, þar sem einstaklingar og fyrirtæki munu geta sótt nær alla opinbera þjónustu með stafrænum hætti þvert á stofnanir. Með Straumnum geta upplýsingar flætt á milli stofnana og þannig sparast tími fyrir fólk og fyrirtæki sem annars færi í að fylla út eyðublöð og ferðast milli staða,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Rekstri samfélagsins fylgir mikið magn gagna og góð stjórnun og umsjón þeirra eru forsenda skilvirkrar og gagnsærrar þjónustu hins opinbera. Á Íslandi eru sóknarfæri í að bæta samvirkni milli upplýsingakerfa stofnana og sveitarfélaga. Með sjálfvirknivæðingu ferla í gegnum Ísland.is fá stofnanir einnig meira rými til að sinna kjarnaverkefnum sínum. Enn fremur skapast tækifæri fyrir atvinnulífið að tengjast hinu opinbera með öruggari og sveigjanlegri hætti í gegnum Strauminn, en jafnframt til samskipta sín á milli.
Straumurinn verður einn af lykilinnviðum ríkisins og er ein helsta tæknilega forsendan fyrir bættri þjónustu hins opinbera. Straumurinn, eða X-Road, er þróaður af Eistum og Finnum með opinbera þjónustu í huga. X-Road hefur verið í notkun í um 15 ár og með nýtingu þess hafa Eistland og Finnland skipað sér í fremstu röð þjóða þegar kemur að veitingu stafrænnar opinberrar þjónustu. Með innleiðingu á Straumnum verður Ísland með samskonar gagnabraut og þessar þjóðir sem gefur möguleikann á að samtengja þjónustu á milli þessara landa.
Straumurinn - bætt stafræn þjónusta hins opinbera
Straumurinn - bætt stafræn þjónusta hins opinbera from Fjármála- og efnahagsráðuneytið on Vimeo.