Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2018 Utanríkisráðuneytið

Fjöldi viðburða í sendiskrifstofum vegna fullveldisafmælis

Frá fullveldisafmælisviðburði í Lilongve í Malaví - myndUtanríkisráðuneytið

Hátíðarhöld vegna eitt hundrað ára fullveldisafmælis Íslands ná hápunkti á morgun, 1. desember, með fullveldishátíð í Reykjavík. Þessum miklu tímamótum hefur verið fagnað víða um lönd að undanförnu, meðal annars í öllum sendiskrifstofum Íslands þar sem efnt hefur verið til margvíslegra viðburða síðastliðna vikur og mánuði af þessu tilefni. Og heilmikið stendur til dagana í kringum sjálft fullveldisafmælið. Yfirlitið hér að neðan er alls ekki tæmandi heldur er aðeins stiklað á stóru. 

Sendiráðið í Beijing
Þann 26. nóvember var haldin vegleg  og fjölmenn veisla í sendiráði Íslands í Beijing í Kína. 30. nóvember var svo opnuð kvikmyndahátíð í China Film Archive með sjö íslenskum kvikmyndum. Friðrik Þór leikstjóri og Laufey Guðjónsdóttir frá kvikmyndamiðstöð mættu á staðinn. Daginn eftir, á sjálfan fullveldisdaginn, var svo sýnd kvikmyndin Börn Náttúrunnar í kínverska ríkissjónvarpinufyrir tilstuðlan sendiráðs.
12. desember verður útgáfumálþing og hóf vegna safnrits um íslenskar bókmenntir í kínverskri þýðingu sem gefið var út í tilefni hundrað ára fullveldisafmælis  og mun Steinunn Sigurðardóttir taka þátt í því. Sérstaklea var lögð rækt við að merkja þessa viðburði með áberandi veggspjöldum með merki afmælisins.

Sendiráðið í Brussel
Sendiráð Íslands í Belgíu/fastanefnd gagnvart ESB fagnaði fullveldisafmælinu 29. nóvember 2018, en þá bauð sendiherrann, Gunnar Pálsson, kollegum, starfsmönnum fjölþjóðastofnana og Íslendingum í Brussel til síðdegismótttöku í sendiherrabústaðnum, þar sem boðið var upp á veitingar og íslensk tónlistaratriði. Sendiráðið hefur auk þess staðið fyrir fjölda viðburða í tilefni fullveldisafmælisins á árinu. 


F
astanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu (Brussel)
Fastanefndin bauð fulltrúum bandalags- og samstarfsríkja, svo og yfirmönnum alþjóðastarfsliðs til móttöku í tilefni 100 ára fullveldisafmælisins. Var móttakan haldin í bústað fastafulltrúa þann 29. nóvember. Um 80-90 manns komu til hátíðahaldanna. 


Fastanefnd/Sendiráð Íslands í Genf
Í Genf var sendiherrum frá öllum ríkjum heims boðið í móttöku þar sem myndlistarkonan Guðbjörg Lind Jónsdóttir fékk gesti til að taka þátt í þáttökulistaverkinu „Minningasafn þjóðar“.  Gestirnir sendu póstkort með skilaboðum til íbúa Þingeyrar. Listaverkið kom af stað áhugaverðum umræðum um þjóðir og sjálfstæði þeirra á meðal um eitt hundrað gesta. Póstkortin verða hluti af innsetningu sem sýnd verðir í Vertshúsinu á Þingeyri í júlí 2019 þegar 101 árs fullveldi Íslands verður fagnað.


Sendiráðið í Helsinki
Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins efnir sendiráðið í Helsinki til hátíðardagskrár í Riddarahúsinu í Helsinki á morgun, laugardaginn 1. desember. Paula Risikko forseti finnska þingsins ávarpar gesti fyrir hönd finnsku þjóðarinnar. Sendiherrar Íslands og Danmerkur í Helsinki, Árni Þór Sigurðsson og Charlotte Laursen, flytja ávarp. Bogi Ágústsson, formaður Norræna félagsins á Íslandi, heldur erindi um fullveldið.

Knapar á íslenskum hestum taka á móti gestum við komu. Á dagskrá eru einnig íslensk og finnsk tónlistaratriði með Ara Þór Vilhjálmssyni, fiðluleikara, og Jouko Laivuori, pianóleikara, og að lokum uppistand með Hugleiki Dagssyni sem hefur notið mikilla vinsælda í Finnlandi.

Upptaka með ávarpi forseta Íslands verður sýnd í upphafi dagskrár. Matreiðslumeistarinn Garðar Aron Guðbrandsson ætlar að töfra fram dýrindis rétti úr íslensku hráefni sem boðið verður upp á að lokinni menningardagskrá.

Sama dag mun íslensku fánalitunum vera varpað á finnska utanríkisráðuneytið og Finlandia húsið til þess að samfagna íslensku þjóðinni á þessum hátíðardegi.. 


Sendiráðið í Kampala
Sendiráðið í Kampala í Úganda hélt upp á fullveldið miðvikudaginn 14. nóvember að viðstöddum aðstoðarutanríkisráðherra Úganda, Okello Henry Oryem og ríflega eitthundrað gestum, þ.á.m. samstarfsaðilum Íslands í Buikwe og Kalangala héraði og fyrrum nemendum Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Greint var frá viðburðinum í fjölmiðlum, sjónarpsviðtal tekið við sendiherra og stefnt er að birtingu blaðagreinar um fullveldisafmælið og þróunarsamstarf Íslands í Úganda í einu stærsta dagblaðinu, The Daily Monitor, á morgun þann 1. desember.


Sendiráðið í Kaupmannahöfn
Auk fjölmargra viðburða það sem af er ári verður mikið um dýrðir í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn í dag og um helgina í tilefni fullveldisafmælisins. Síðar í dag verður sýningin Hátt og lágt – samtímalist frá Íslandi opnuð en þar verða sýnd verk frá áttunda áratug síðustu aldar til dagsins í dag eftir ellefu samtímalistamenn frá Íslandi sem vinna með ólíka miðla. Titillinn vísar til hinna óútreiknanlegu veðurskilyrða á Íslandi sem orsakast af hæðum og lægðum sem ganga á víxl yfir Norður-Atlantshafið. Í tengslum við sýninguna verður videóverki listamannsins Ólafs Elíassonar með landslagsmyndum frá Íslandi varpað á framhlið sendiráðsins á Norðurbryggju.

Á morgun verður svo efnt til hátíðardagskrár í tilefni dagsins. Dagskráin hefst með ávarpi forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, sem hann flytur frá Bessastöðum. Að loknum kórsöngi munu sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Benedikt Jónsson, og fyrrverandi menntamálaráðherra Danmerkur, Bertel Haarder, flytja ávörp. Að því loknu hefst fjölbreytt og vegleg hátíðardagskrá.

Hátíðardagskráin er sniðin að fólki á öllum aldri. Nokkrir af ástsælustu skemmtikröftum íslensku þjóðarinnar stíga á stokk og má þar nefna Sigríði Thorlacius, Ævar vísindamann og JóaPé og Króla, ásamt uppistandi frá Dóra DNA og Sögu Garðarsdóttur. Þar að auki munu íslensku kórarnir í Kaupmannahöfn, Dóttir, Hafnarbræður, Kvennakórinn og Staka, flytja samsöng undir merkjum Fullveldiskórsins. Þá munu verða til sýnis verk nemenda við Íslenskuskólann í Kaupmannahöfn sem þeir hafa unnið í tilefni aldarafmælis fullveldisins.


Sendiráðið í Lundúnum 
Sendiráð Íslands í Lundúnum hefur á árinu staðið fyrir ýmsum viðburðum á árinu í tilefni fullveldisins. Í apríl var haldin kynning á rannsóknum og ritröð bóka um Snorra Sturluson og Reykholt. Í júní stóð svo sendiráðið fyrir kynningu á Flateyjarbók, sem verið er að þýða yfir í heild sinni á ensku í fyrsta sinn. Saga Heritage Foundation hefur umsjón með þýðingunni og flutti verkefnastjóri þeirra, Baard Titlestad, kynningu á verkefninu.

Í upphafi þessa mánaðar las svo rithöfundurinn Sjón upp úr bók sinni, Mánasteini, sem gerist á árinu 1918 á tímum spænsku veikinnar og fullveldisins. Sjón tók einnig þátt í Manchester Literature Festival og kynnti þá bók sína Codex 1962 í enskri þýðingu og norræna smásagnasafnið „The Dark Blue Overcoat“. 

Aðalræðisskrifstofan og fastanefndin í New York
Aðalræðisskrifstofan í New York í samstarfi við Íslensk-Ameríska verslunarráðið hélt ráðstefnu um framtíð íslenskunnar undir nafninu „The Future of the Icelandic Language“ í maí í tilefni fullveldisafmælis Íslands þar sem forsetahjónin tóku þátt í dagskránni.  Umræðu voru sendar út á Facebook Live.
Barnamenningu verður gert hátt undir höfði í desember undir merkjum fullveldisafmælisins þegar Skoppa og Skrítla verða með sýningu í Norræna húsinu í New York.  Sýningunni lýkur með hefðbundnu jólaballi fyrir börnin.  Aðalræðisskrifstofan og fastanefnd Íslands við Sameinuðu þjóðirnar halda svo sameiginlega fullveldismóttöku fyrir fastafulltrúa, aðalræðismenn og mikilvæga tengiliði úr viðskiptalífinu í New York þann 4. desember.  Aðalræðisskrifstofan hefur allt árið  2018 markvisst tengt skilaboð um fullveldisafmælið við alla viðburði á vegum skrifstofunnar og hampað tímamótunum á sterku samfélagsneti og vefsíðu Iceland Naturally.


Sendiráðið í Ósló
Í tilefni fullveldisafmælisins var haldin fjölmenn hátíðarsamkoma í Óslóarháskóla fimmtudaginn 29. nóvember, þar sem sameiginlegum sagna- og menningararfi Íslands og Noregs var fagnað. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ávarpaði samkomuna og forseti norska stórþingsins, Tone W. Trøen, afhenti verðlaun í ritgerðasamkeppni um konur í norrænum bókmenntum. Tríóið DaNoIs frumflutti tónverkið Islandia Insula Est eftir Gísla J. Grétarsson tónskáld, kór Íslendinga í Ósló söng og norska tónlistarkonan Susanna Wallumrød flutti nýtt lag. Fagnað var nýrri útgáfu á Njáls sögu í þýðingu Jons Gunnars Jørgensen prófessors sem ræddi um Njálu við Helen Uri prófessor og Stefku G. Eriksen bókmenntafræðing. Þá lásu leikararnir Hilmir Snær Guðnason, Sarah Ramin Osmundsen og Gørild Mauseth úr Njálu. Hátíðarsamkoman var haldin í samstarfi Thorleif Dahls kulturbibliotek og sendiráðs Íslands, ásamt Norræna félaginu og dagblaðinu Klassekampen.


Sendiráðið í Ottawa
Í Ottawa verður hátíðarkvöldverður í tilefni fullveldisafmælisins í embættisbústaðnum fyrir starfsmenn úr utanríkisráðuneyti Kanada, þingmenn, sendiherra Norðurlandanna og ýmsa vini og velgörðarmenn Íslands.

Í október hélt sendiráðið stóra móttöku í embættisbústaðnum, þar sem Bjarni Tryggvason geimfari og Timothy Sargent aðstoðarráðherra úr utanríkisráðuneytinu, auk Péturs Ásgeirssonar sendiherra, héldu ræður.

Þá stóð Canadian Nordic Society fyrir galakvöldverði snemma í nóvember þar sem voru fluttar ræður til heiðurs Íslandi og flutt íslensk tónlist. Sendiherra var aðalræðumaður kvöldsins og fjallaði um 100 ára sjálfstæðis- og fullveldisafmæli Íslands. 


Sendiráðið í París
Sendiráðið Íslands í París minntist 100 ára afmælis fullveldis og framfara á Íslandi með stórtónleikum hljómsveitarinnar Amiinu. Hljómsveitin flutti við þetta tækifæri tónverk sitt við þöglu spennumyndina  Juve contre Fantomas frá árinu 1913 eftir franska kvikmyndaleikstjórann Louis Feuillade. Fjölmenni sótti tónleikana og gæddi sér að þeim loknum á dýrindis íslenskum sjávarréttum í boði Blumaris og Norrpro.


Sendiráðið í Moskvu
Þriðjudaginn 4. desember stendur sendiráð Íslands í Moskvu fyrir viðburði í tilefni fullveldisins. Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra flytur ræðu og birt verður myndbandsávarp Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Þá flytur íslensk söngkona íslensk og rússnesk lög og ný bók með íslenskum ljóðum verður kynnt. Um er að ræða safn nútímaljóða eftir tuttugu skáld með sýnishorni af skáldskap hvers og eins á íslensku og í rússneskri þýðingu Olgu Markelovu.

Þann 1. júní stóð sendiráðið fyrir málþingi um vestnorrænu tungumálin, íslensku, færeysku og grænlensku, og hlutverk tungumála í sjálfsmynd þessara þjóða. Dr. Auður Hauksdóttir, Dr. Kristján Árnason og Dr. Þórhallur Eyþórsson héldu fyrirlestra og í kjölfarið fóru fram hringborðsumræður með rússneskum málvísindamönnum. 

Aðalræðisskrifstofan í Winnipeg
Aðalræðisskrifstofan verður með fullveldismóttöku á morgun, þann 1. desember, þar sem m.a. verður á boðstólum þjóðlegur íslenskur matur. Á dagskrá verður myndbandsávarp forseta Íslands í tilefni dagsins, síðan mun Vestur-Íslendingurinn Davíð Gíslason, skáld og fyrrv. bóndi á Svaðastöðum í Manitoba í Kanada, flytja ávarp og segja frá fundinum á Þingvöllum þann 18. júlí sl. þar sem hann var sérstakur gestur Alþingis og fulltrúi frænda okkar í Vesturheimi.  Að lokum flytur kvennakórinn Sólskríkjurnar í Winnipeg, nokkur íslensk ættjarðarlög en kórinn er skipaður konum af íslensku bergi brotnu. 


Aðalræðisskrifstofan í Þórshöfn
Hátíðardagsskrá 1. desember vegna 100 ára fullveldisafmælisins verður haldin á morgun, 1. desember, í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn. Hljómsveitin Ylja leikur fyrir gesti en ávörp flytja Guðni Th. Jóhannesson forseti (á skjávarpa), Pétur Thorsteinsson, aðalræðismaður og Líf Magneudóttur, borgarfulltrúi.

 

  • Frá Kampala í Úganda - mynd
  • Frá fullveldisviðburði í Peking - mynd
  • Frá afmælishátíð íslenska hestsins í Kaupmannahöfn - mynd
  • Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á fundi í tilefni fullveldisafmælis Þórshöfn í Færeyjum. - mynd
  • Frá fullveldisviðburði í París - mynd
  • Frá móttöku hjá fastanefnd Íslands hjá NATO. Anna Jóhannsdóttir fastafulltrúi á upphlut. - mynd
  • Frá fullveldisafmælisviðburði í Genf - mynd
  • Frá Berlín - mynd
  • Frá fullveldisafmælisviðburði í Brussel - mynd
  • Frá fullveldisafmælisviðburði í Washington - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta