Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin
Íslensk sendinefnd er nú komin til Katowice í Póllandi þar sem 24. ráðstefna aðildarríkja Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Cop24) var sett í gær.
Meginverkefni fundarins er að ganga frá samkomulagi varðandi innleiðingu Parísarsamningsins, en vinna þar að lútandi hefur staðið allt frá því að hann var samþykktur í París árið 2015. Stærstu verkþættirnir lúta m.a. að reglum er varða bókhald og skýrslugjöf, þannig að tölur og upplýsingar verði samhæfðar og sambærilegar. Settar verða fram leiðbeiningar varðandi markmið ríkja um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. hvaða upplýsingar þurfi að liggja fyrir til að auka skýrleika, gegnsæi og skilning á markmiðunum.
Í dag hafa ýmsir leiðtogar ávarpað fundinn, þ.á m. forseti Póllands og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. Leiðtogar lögðu áherslu á mikilvægi grænnar tækni og vísinda og nauðsyn þess að ríki stórauki aðgerðir sínar til að berjast gegn loftslagsbreytingum, m.a. með aukinni fjármögnun aðgerða. Sérstakur gestur fundarins var Sir David Attenborough sem í ávarpi sínu ítrekaði að tíminn væri skammur og þjóðir heims treystu á að ríkisstjórnir brygðust við loftslagsvandanum.
Ráðherravika fundarins hefst næstkomandi mánudag og mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, sækja fundinn fyrir Íslands hönd.
Nánari upplýsingar um fundinn má finna á vef Loftslagssamningsins.