Helga Björg aðstoðar heilbrigðisráðherra tímabundið
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ráðið Helgu Björg Ragnarsdóttur tímabundið í stöðu aðstoðarmanns til að leysa af Iðunni Garðarsdóttur meðan hún er í fæðingarorlofi. Helga Björg er skrifstofustjóri hjá Reykjavíkurborg en verður í leyfi frá störfum sínum þar meðan á afleysingu stendur.
Helga Björg er með BA-próf í félagsfræði og MS-próf í viðskiptafræði með áherslu á stjórnun og stefnumótun. Hún hefur starfað hjá Reykjavíkurborg um árabil, fyrst sem deildarstjóri mannauðsdeildar framkvæmda- og eignasviðs, síðar sem starfsmannastjóri umhverfis- og samgöngusviðs og frá árinu 2012 sem skrifstofustjóri á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.