Sóknarfrumvarp samþykkt: Fjárlög 2019 afgreidd frá Alþingi
Fjárlög fyrir árið 2019 voru samþykkt á Alþingi í dag. Þetta er í fyrsta sinn síðan 2011 sem fjárlög eru samþykkt í fyrstu heilu viku desember, eins og kveðið er á um í þingskapalögum.
Afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs verður 1% af vergri landsframleiðslu eða tæplega 29 milljarðar króna. Þetta er í samræmi við afkomumarkmið fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar. Síðustu ár hefur rekstur ríkissjóðs verið jákvæður þrátt fyrir að útgjöld hafi aukist verulega, sérstaklega til heilbrigðismála og félags-, trygginga- og húsnæðismála. Þannig hafa útgjöld til almannatrygginga aldrei verið hærri en árið 2019. Styrking áðurnefndra málaflokka heldur áfram með þessum fjárlögum, auk þess sem átak verður gert í samgöngumálum.
Gert er ráð fyrir að rammasett útgjöld hækki um ríflega 34 milljarða auk launa og verðlagshækkana eða um 4,9% milli áranna 2018 og 2019. Heildargjöld ríkissjóðs hækka um 7% að nafnvirði frá fyrra ári, eða um ríflega 56 milljarða króna. Á móti er gert ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs aukist um tæplega 52 milljarða. Þetta er við efri mörk mögulegs útgjaldavaxtar en útgjöld verða endurmetin reglulega með það að markmiði að fjármunum sé ráðstafað með sem bestum hætti.
Breytingar vegna endurmetinnar þjóðhagsspár
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpinu frá því það var lagt fram á Alþingi í september, til að mæta endurmati á tekjum, gjöldum og afkomu ríkissjóðs sem byggist á uppfærðri spá Hagstofu Íslands sem birt var 2. nóvember sl. Samkvæmt henni er útlit fyrir að hagkerfið nálgist jafnvægisvöxt á næstu misserum og hagvöxtur næstu ár verði í kringum 2,5%. Þrátt fyrir minni hagvöxt verður hagkerfið stærra en áður var talið árið 2019 vegna meiri vaxtar árin 2017 og 2018.
Endurmatið leiðir til óverulegra heildarbreytinga á tekju- og gjaldahlið, þar sem frávik í báðar áttir jafna út áhrifin, en vegna breyttra verðlagsforsendna í endurmetinni þjóðhagsspá er nú gert ráð fyrir 3,6% launa- og verðlagshækkun árið 2019, auk þess sem bætur almannatrygginga og atvinnuleysisbætur hækka einnig um 3,6% í stað 3,4%. Er það í takt við verðbólguspá næsta árs en gert er ráð fyrir að bæturnar hækki frá og með 1. janúar nk.
Áherslur á árinu 2019
Á næsta ári aukast framlög til heilbrigðismála. Þar vega þyngst framkvæmdir við nýjan Landspítala og renna 4,7 ma.kr í þær en auk þess aukast framlög vegna byggingar og rekstrar hjúkrunarheimila. Hækkun framlaga til heilbrigðismála milli 2018 og 2019 nemur 9,7 milljörðum króna að frátöldum launa- og verðlagshækkunum. Einnig er verulega er aukið við framlög til félags-, húsnæðis- og tryggingamála. Þar er hækkun í heild 11,5 ma.kr. að undanskildum launa- og verðlagshækkunum.
Áfram verður lögð áhersla á fjárfestingar í innviðum. Auk uppbyggingar nýs Landspítala við Hringbraut er gert ráð fyrir 5,5 milljarða króna aukningu til samgöngumála. Þar er fyrst og fremst um að ræða sérstakt átak í samgöngumálum á árunum 2019-2021 sem fjármagnað verður með arðgreiðslum fjármálafyrirtækja. Gert er ráð fyrir að framlög til samgöngu- og fjarskiptamála verði aukin um 9% á árinu 2019 en framlög til málaflokksins verða ríflega 42,4 ma.kr.
Af öðrum stærri fjárfestingarverkefnum má nefna fyrstu framlög til kaupa á nýjum þyrlum fyrir Landhelgisgæsluna, sem gert er ráð fyrir að verði afhentar árið 2022, auk uppbyggingar Húss íslenskunnar.
Rúmir 25 milljarðar króna í stuðning vegna húsnæðis
Stuðningur vegna húsnæðis eykst á næsta ári um ríflega 800 miljónir króna og nemur alls um um 25,3 milljörðum króna. Stuðningurinn er veittur eftir nokkrum ólíkum leiðum, svo sem í formi húsnæðisbóta og stofnframlaga til byggingar almennra íbúða og vaxtabóta. Einnig er húsnæðisstuðningur veittur með skattastyrkjum vegna almenns séreignarsparnaðarúrræðis og stuðnings til fyrstu kaupa, auk undanþágu leigutekna frá skatti, afsláttar á stimpilgjöldum vegna fyrstu kaupa og endurgreiðslu á virðisaukaskatti til byggjenda vegna sölu og leigu íbúðarhúsnæðis og til fasteignaeigenda vegna viðhaldsvinnu.
Hærri persónuafsláttur og barnabætur
Árið 2019 verður unnið að fyrstu áföngum í breytingum á samspili tekjuskatts- og bótakerfa, sem er eitt af stefnumálum ríkisstjórnarinnar. Persónuafsláttur hækkar um 1 prósentustig umfram lögbundna 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs á árinu 2019. Hækkun þrepamarka efra skattþreps verður miðuð við vísitölu neysluverðs. Við þetta verður jafnræði milli ólíkra tekjuhópa gagnvart skattkerfinu meira og skattgreiðslur almennings lækka um 1,7 ma.kr.
Samhliða hækkun persónuafsláttar og tengingu þrepmarka efra skattþreps við vísitölu neysluverðs verða barnabætur hækkaðar verulega, eða sem svarar til 1,6 ma.kr. frá síðustu fjárlögum. Það felur í sér 16% hækkun milli áranna 2018 og 2019. Auk hækkunar fjárhæða og viðmiðunarmarka skerðingar barnabóta er í fjárlögum gert ráð fyrir nýju þrepi skerðingar á barnabótum sem er ætlað að tryggja að hækkunin skili sér fyrst og fremst til lágtekju- og lægri millitekjuhópa. Vaxtabætur hækka einnig, um sem nemur 13% frá áætlaðri útkomu 2018.
Tryggingagjald lækkað
Í ársbyrjun 2019 lækkar tryggingagjald um 0,25 prósentustig og aftur um 0,25 prósentustig í ársbyrjun 2020, samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum. Samanlagt þýðir þetta um 9,3% lækkun á gjaldinu. Er aðgerðinni ætlað að stuðla að jafnvægi á vinnumarkaði og því að launahækkanir á næsta ári leiði síður til verðbólgu.
Góð staða og skuldalækkun
Þótt hægst hafi á vexti er hann enn umtalsverður og talsvert meiri en flest þróuð hagkerfi í Evrópu geta vænst. Staða efnahagsmála telst góð á flesta mælikvarða og skuldir ríkissjóðs hafa lækkað hratt í kjölfar markvissra aðgerða. Alls lækka skuldir ríkissjóðs um 67 milljarða á árinu 2018 í 30% af vergri landsframleiðslu, en þegar hlutfallið fór hæst árið 2011, var það 86%. Munu skuldir ríkissjóðs fara undir viðmið fjármálareglna laga um opinber fjármál í fyrsta sinn árið 2019 og er útlit er fyrir að hrein vaxtagjöld verði um 27 milljörðum lægri árið 2019 en árið 2011.