Ísland, Noregur og ESB samstíga um markmið í loftslagsmálum
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, fundaði í dag með Miguel Arias Cañete, framkvæmdastjóra loftslagsmála hjá ESB og Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs, á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Katowice í Póllandi. Þar var farið yfir stöðu mála varðandi samvinnu í loftslagsmálum og drög að samkomulagi sem nú liggja fyrir milli Íslands, Noregs og Evrópusambandsins um sameiginlega framkvæmd 30 ríkja á markmiðum Parísarsamningsins til 2030.
Fram kom í máli Cañete að efnislega væri samkomulagið nú nær frágengið af hálfu ESB og færi í formlegan afgreiðsluferil innan ESB, áður en málið yrði tekið fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni og í hefðbundinn farveg skv. EES-samningnum.
Umhverfis- og auðlindaráðherra sagðist á fundinum í dag vera ánægður með samstarfið við Norðmenn og ESB og gang mála í viðræðunum undanfarna mánuði. Það væri af hinu góða að vinna saman að metnaðarfullu markmiði og búa við sambærilegar kröfur og reglur um losun. Ráðherrarnir töldu allir að samkomulagi væri náð um helstu mál efnislega og að tími væri kominn til að setja það í formlegan feril innan EES-samningsins.
Ísland tilkynnti til Parísarsamningsins árið 2015 að stefnt væri að sameiginlegri framkvæmd með ESB og aðildarríkjum þess, með fyrirvara um að samningar næðust um fyrirkomulag þetta. Norðmenn sendu inn sambærilega tilkynningu. Parísarsamningurinn heimilar ríkjum að setja sameiginlegt markmið og með því fyrirkomulagi væru Ísland og Noregur og 28 ríki ESB með sameiginlegt markmið um 40% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030, miðað við 1990. Innri reglur ríkjanna 30 ákvarða svo hlutdeild og skyldur hvers ríkis, en gagnvart Parísarsamningnum leggja ríkin fram eitt sameiginlegt framlag.
Viðræður um fyrirkomulag þessa sameiginlega markmiðs hafa farið fram á milli Íslands, Noregs og ESB undanfarna mánuði. Þar er gert ráð fyrir að Ísland og Noregur taki upp tvær af meginreglugerðum ESB um losun gróðurhúsalofttegunda, í viðbót við reglugerð um viðskiptakerfi um losunarheimildir (ETS), sem ríkin hafa nú þegar tekið inn á grunni EES-samningsins. Um er að ræða reglugerð um „sameiginlega ábyrgð“, sem tekur á losun utan ETS, og reglugerð um landnotkun og skógrækt, sem tekur á losun og kolefnisbindingu vegna aðgerða í landnotkun.
Ísland þarf að ná 29% samdrætti í losun utan ETS (frá samgöngum, landbúnaði, sjávarútvegi o.fl. uppsprettum) árið 2030 miðað við 2005. Sú krafa er lægri en markmið stjórnvalda sem voru kynnt í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í september sl., þar sem stefnt er að 40% samdrætti í losun. Það markmið stjórnvalda er óbreytt, þótt krafan á Ísland skv. reglugerðinni verði lægri, enda ríkjum frjálst að setja sér metnaðarfyllri markmið en regluverk ESB gerir ráð fyrir.
Auk ofangreindra reglugerða myndu Ísland og Noregur einnig taka upp skyldar reglur sem lúta að losunarbókhaldi, skýrslugerð og skyldum málum.