Hoppa yfir valmynd
14. desember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Þrír milljarðar í sanngirnisbætur

Halldór Þormar Halldórsson og Guðrún Ögmundsdóttir kynna skýrslu um greiðslu sanngirnisbóta - mynd

Í dag kom út skýrsla þar sem kynntar voru niðurstöður á greiðslu sanngirnisbóta fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum fyrir börn. Um er að ræða einstakt verkefni í sögu Íslands, en greiddar hafa verið bætur til hátt í 1200 einstaklinga og nema bótagreiðslur um þremur milljörðum króna. Sanngirnisbætur eru byggðar á rannsókn vistheimilanefndar á árunum 2007-2017 á starfsemi vistheimila og stofnana þar sem börn voru vistuð á síðustu öld. Um er að ræða 11 heimili og stofnanir og fjölmargar undirstofnanir. Nefndin hefur skilað fimm skýrslum um niðurstöðurnar. Dómsmálaráðuneytið hefur haft umsjón með framkvæmd á bótagreiðslum og var Guðrún Ögmundsdóttir ráðin í sérstakt starf tengiliðar með vistheimilum sem hefur haft það hlutverk að aðstoða þá sem vilja sækja um bætur í því ferli og leita ýmissa úrræða sem eru í boði að hálfu hins opinbera, eins og sálfræðiaðstoðar og ráðgjafar. Sýslumanninum á Siglufirði, síðar sýslumanninum á Norðurlandi eystra, var falið að annast innköllun á bótakröfum og ákveða bætur, en unnt er að vísa ákvörðun um bætur til úrskurðarnefndar. Umsjónarmaður sanngirnisbóta hjá sýslumanninum er Halldór Þormar Halldórsson.

Eftir að svonefnt Breiðavíkurmál komst í hámæli í febrúar 2007 hófst viðamikið ferli þar sem farið var yfir vistun barna á vist- og meðferðarheimilum á síðustu öld. Rannsóknir á starfsemi þessara 11 stofnana og margra undirstofnana, gáfu sterkar vísbendingar um að börn sem dvöldu á þeim til lengri eða skemmri tíma hefðu í mörgum tilvikum mátt sæta ýmiskonar vanvirðandi og illri meðferð eða ofbeldi. Greiðsla skaðabóta var þó miklum vandkvæðum bundin þar sem bótakröfur voru allar fyrndar og sönnun tjóns afar flókin. Farin var sú leið að setja sérstök lög um sanngirnisbætur, eða greiðslu bóta utan almennrar skyldu. Þau tóku gildi 2010 og hófst verkefnið í októbermánuði það ár. Innköllun á kröfum fór fram eftir því sem starfi vistheimilanefndar miðaði áfram. Með lögunum var málsmeðferð einfölduð til þess að hraða mætti afgreiðslu málanna. Árið 2015 var bætt við lögin bráðabirgðaákvæði sem gerði fyrrum nemendum Landakotsskóla var gert mögulegt að sækja um sanngirnisbætur.

Skýrsluna má nálgast hér: Skýrsla um framkvæmd á greiðslu sanngirnisbóta á grundvelli laga nr. 47-2010


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta