Undirritun samnings um ráðgjöf Siðfræðistofnunar til stjórnvalda um siðfræðileg efni
Siðfræðistofnun, rannsóknarstofnun innan vébanda Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, verður stjórnvöldum til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum tímabilið 1. janúar 2019 til 31. desember 2021. Þetta kemur fram í samstarfssamningi sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar rituðu undir í gær.
Stofnunin mun vinna með stjórnvöldum að eftirfylgni og innleiðingu tilmæla í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem var birt í september sl. Samkvæmt samningnum getur hvert ráðuneyti einnig óskað eftir ráðgjöf Siðfræðistofnunar um einstök mál á sínu málefnasviði, þar með talið um fyrirhugaða lagasetningu. Þá geta Alþingi og stofnanir þess óskað eftir ráðgjöf Siðfræðistofnunar. Greiðslur úr ríkissjóði fyrir verkið munu nema 10 m.kr. árlega.