Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Ábendingar landlæknis um viðbrögð við alvarlegri stöðu á bráðamóttöku Landspítalans

Landspítalinn Fossvogi - myndVelferðarráðuneytið

Heilbrigðisráðherra hefur móttekið minnisblað frá landlækni með helstu niðurstöðum úttektar embættisins á bráðamóttöku Landspítalans og ábendingum til heilbrigðisráðherra um úrræði til að bregðast við útskriftar- og mönnunarvanda sjúkrahússins.

Landlæknir hóf úttekt á stöðu mála á bráðamóttöku Landspítalans í kjölfar ábendingar um alvarlega stöðu þar, sem barst embættinu 6. desember. Úttektin hófst samdægur með heimsóknum, rýni á gögnum og viðtölum við starfsfólk og stjórnendur. Endanleg niðurstaða úttektarinnar liggur ekki fyrir þar sem m.a. er beðið eftir tölulegum gögnum, en minnisblaðið til ráðherra felur í sér þær helstu niðurstöður sem liggja fyrir að svo komnu og ábendingar þeim tengdar.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun gera ríkisstjórninni grein fyrir stöðu mála um leið og Embætti landlæknis hefur lokið úttekt sinni að fullu. Ábendingar landlæknis til heilbrigðisráðherra sem fram koma í minnisblaðinu lúta einkum að tvennu; annars vegar þörfinni fyrir að fjölga hjúkrunarrýmum og stuðla að því að sjúkrahúsið geti útskrifað sjúklinga að lokinni meðferð, hins vegar að brýnni þörf fyrir að efla mönnun, sérstaklega í stöður hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, til skemmri og lengri tíma. „Leiðir til að bregðast við mönnunarvandanum eru til umfjöllunar hjá ráðherranefnd um samræmingu mála, enda um mjög stórt mál að ræða og aðrar aðgerðir sem tilgreindar eru í minnisblaði landlæknis eru í farvegi“ segir heilbrigðisráðherra.

Eftirtalin eru þau úrræði „sem landlæknir hvetur heilbrigðisráðherra til að leggja sitt af mörkum við að leysa varða hvorutveggja útskriftar- og mönnunarvanda Landspítalans:

  • Öldrunarheimilið á Seltjarnarnesi verði opnað eins fljótt og verða má.
  • Opnun sjúkrahótels verði flýtt eins og unnt er.
  • Greint verði frekar hver áhrif af þessu tvennu verði og metið í samráði við Landspítala hvort grípa þurfi til frekari úrræða eins og til dæmis að fela til þess bærum aðilum að reka hjúkrunarrými til bráðabirgða.
  • Heimahjúkrun og heimaþjónusta verði efld og áhersla lögð á samhæfingu öldrunarþjónustu. Bent var á í nýlegri skýrslu KPMG um mat á InterRAI mælitækjum að hérlendis fer mun lægra hlutfall af vergri landsframleiðslu til heimahjúkrunar en á hinum norðurlöndunum (bls. 12). 3
  • Til lengri tíma þarf að ráðast í nákvæma greiningu á þörf fyrir hjúkrunarrými, heimahjúkrun og heimaþjónustu. Ennfremur ætti að auka áherslu á heilsueflingu eldri borgara.
  • Efla þarf mönnun, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, til skemmri og lengri tíma. Landlækni er kunnugt um að heilbrigðisráðherra hefur þegar lagt fram tillögur til að bregðast við þeim vanda sem að mati landlæknis þolir enga bið.

Minnisblað landlæknis til heilbrigðisráðherra

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta