Hoppa yfir valmynd
20. desember 2018 Matvælaráðuneytið

Þak sett á magn greiðslumarks mjólkur

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undirritaði í dag fjórar reglugerðir um stuðning við nautgriparækt, sauðfjárrækt, garðyrkju og landbúnað. Er þetta í samræmi við ákvæði búvörusamninga frá 2016 og eru reglugerðirnar endurskoðaðar árlega. Reglugerðirnar eru að mestu leyti samhljóða reglugerðum sem að giltu um sama efni árið 2018 og eru þær breytingar sem gerðar eru flestar smávægilegar.

Helsta breytingin er að í reglugerð um stuðning við nautgriparækt er nú kveðið á um þak á magn greiðslumarks sem að framleiðandi getur óskað eftir á hverjum markaði og miðast það við 100.000 lítra. Eftirspurn eftir greiðslumarki í mjólk er mikil og á síðustu mörkuðum hafa borist umsóknir um óraunhæft magn sem hefur gert það að verkum að minna var eftir af greiðslumarki fyrir þá sem að bjóða í það magn sem þeir raunverulega þurfa til að sinna starfsemi sinni. Jafnframt er gerð sú breyting að innlausnardögum er fækkað og verða þeir nú þrír á ári. Hver framleiðandi getur því að hámarki óskað eftir 300.000 lítrum yfir árið. Stjórn Landssambands kúabænda hefur lýst yfir stuðningi við þessa breytingu.

Endurskoðun reglugerðanna var unnin í ráðuneytinu í samstarfi við Búnaðarstofu Matvælastofnunar og Bændasamtök Íslands. Drög að reglugerðunum voru sendar til umsagnar til hagsmunaaðila í desember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta