Greiðslur fyrir þjónustu sérgreinalækna meðan samningaviðræður standa yfir
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð þar sem kveðið er á um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Áhersla er lögð á að samningsleysið komi ekki niður á notendum meðan það varir og hafa Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur gefið út sameiginlega yfirlýsingu þess efnis.
Yfirlýsing Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur, dags. 21. desember 2018, er eftirfarandi:
„Læknafélag Reykjavíkur og Sjúkratryggingar Íslands vilja koma á framfæri að þó að ekki hafi náðst að framlengja rammasamningi um þjónustu sérgreinalækna nú um áramótin þá er það sameiginlegur vilji beggja aðila að það ástand sem skapast 1. janúar n.k. komi ekki niður á notendum þjónustunnar. Samninganefndir aðila hafa átt í nánum viðræðum og hafa báðir aðilar lýst yfir fullum vilja til framhalds þeirra viðræðna strax í byrjun árs 2019. Sjúkratryggingar Íslands munu gefa út endurgreiðslugjaldskrá sem unnið verður eftir þar til annað er ákveðið.“
Reglugerð heilbrigðisráðherra gildir frá 1. janúar til 31. mars 2019. Reglugerðin sem er meðfylgjandi hefur verið send Stjórnartíðindum til birtingar. Samhliða verður gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands birt en greiðsluþátttaka sjúkratrygginga í kostnaði þeirra sem eru sjúkratryggðir mun byggjast á henni. Sjúkratryggingar munu ekki greiða önnur eða hærri gjöld en kveðið er á um í gjaldskránni.