Niðurstöður hlutaúttektar Embættis landlæknis á bráðamóttöku Landspítala
Embætti landlæknis hefur lokið hlutaúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans. Samkvæmt úttektinni tekst móttökunni vel að sinna bráðahlutverki sínu en vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn. Gerðar eru tillögur að leiðum til úrbóta í skýrslu embættisins.
Niðurstöður úttektarinnar hafa verið birtar á vef Embættis landlæknis en ráðist var í gerð hennar strax og ábending barst embættinu 6. desember sl. um að alvarleg staða hefði skapast á bráðamóttöku Landspítalans. Til að fá fyllri mynd af stöðunni heimsótti starfsfólk embættisins einnig tvær legudeildir á spítalanum. Vinnu við úttektina lauk 28. desember og voru skýrsludrög þá send velferðarráðuneyti, nú heilbrigðisráðuneyti, og Landspítala. Áður var heilbrigðisráðherra sent minnisblað um helstu niðurstöður þann 17. sama mánaðar.
Í tilkynningu um niðurstöður úttektarinnar á vef Embættis landlæknis segir:
,,Helstu niðurstöður hlutaúttektar eru þær að bráðamóttöku Landspítalans tekst vel að sinna bráðahlutverki sínu. Ekki er töf á því að þeir sem veikastir eru fái þjónustu og meðaldvalartími þeirra sem útskrifast heim hefur ekki lengst, er 4-5 klst. sem er innan viðmiða. Vandinn liggur í þjónustu við sjúklinga sem bíða eftir innlögn en meðaldvalartími sjúklinga sem bíða innlagnar á deildir spítalans hefur lengst og er nú 23,3 klst. en æskilegt viðmið er 6 klst. Ástæður þessa eru einkum tvær og endurspeglast í skorti á virkum legurýmum; annars vegar sú að einstaklingar sem lokið hafa meðferð á spítalanum geta ekki útskrifast þar sem úrræði skortir utan hans og er þar einkum um að ræða hjúkrunarrými fyrir aldraða. Þannig bíða nú 53 einstaklingar á bráðadeildum og endurhæfingu. Hins vegar hefur þurft að loka legurýmum á bráðalegudeildum vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og eru nú 35 rúm lokuð vegna þess.
Í skýrslunni eru lagðar fram ábendingar til Landspítala sem einkum fjalla um starfsumhverfi og mönnun, slípun innri ferla, eflingu dag- og göngudeilda og endurmat á því hvort rétt var að loka Hjartagátt. Í ábendingum til heilbrigðisráðuneytis er bent á að opna þurfi, án tafar, fleiri hjúkrunarrými, að efla þurfi heimahjúkrun, heimaþjónustu og dagdvalarrými og að efla þurfi mönnun sérstaklega hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða með öllum tiltækum ráðum. Embætti landlæknis er kunnugt um að heilbrigðisráðuneytið vinnur þegar að þessum málum."
- Tilkynning Embættis landlæknis um helstu niðurstöður hlutaúttektarinnar
- Hlutaúttekt vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítalans